Maggi Már marði Stólana

Það var á löngum köflum klikkuð stemning í Síkinu í kvöld og Grettismenn gáfu allt í botn.  MYND: ÓAB
Það var á löngum köflum klikkuð stemning í Síkinu í kvöld og Grettismenn gáfu allt í botn. MYND: ÓAB

Það voru mikil vonbrigði fyrir heimamenn að tapa fyrsta leiknum í einvigi Tindastóls og Keflavíkur í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í kvöld en leikmenn skildu allt eftir í Síkinu í geggjuðum tvíframlengdum körfuboltaleik. Gestirnir litu lengi vel út fyrir að ætla að landa næsta öruggum sigri en Stólarnir sýndu ótrúlega seiglu og náðu að jafna undir lok venjulegs leiktíma og voru síðan hársbreidd frá sigri. Fyrri framlengingin var æsispennandi en í upphafi þeirrar seinni fékk Hester sína fimmtu villu og þá var úti ævintýri. Lokatölur 102-110.

Stólarnir fóru ágætlega af stað í byrjun leiks og virtust til alls líklegir. Þristur frá Björgvini kom Stólunum í 11-8 um miðjan fyrsta leikhluta en þá náðu gestirnir upp góðri vörn og skot Tindastólsmanna skoppuðu af en ekki í og Keflvíkingar komust í 13-20. Hester, sem var öflugur í leiknum, lagaði stöðuna áður en annar leikhluti hófst. Hörður Axel gerði fimm stig snemma og Keflvíkingar gerðu átta fyrstu stig leikhlutans og Israel Martin bað um leikhlé – enda komin brunalykt og rétt að senda slökkviliðsstjórann inná til að slökkva eldinn. Svabbi setti niður þrjú víti í hvelli og Stólarnir voru aftur komnir með kompásinn í lag. Búbbinn setti skömmu síðar niður þrist og staðan orðin 28-33. Keflvíkingar héldu þó frumkvæðinu og voru yfirleitt sex til níu stigum yfir. Staðan í leikhléi 36-42 eftir að Pétur náði að troða niður þristi í örvæntingu.

Eftir tveggja mínútna leik í síðari hálfleik höfðu Keflvíkingar gert fimm stig og voru ellefu stigum yfir. Þá sögðu Stólarnir hingað og ekki lengra og næstu fimm mínútur voru þeir eins og óðar flugur um allan völl og með æðisgenginni baráttu náðu þeir 15-0 kafla og gestirnir vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið. Fram til loka þriðja leikhluta voru Stólarnir tveimur til fimm stigum yfir og staðan 59-56 þegar fjórði leikhluti hófst.

Það var eins og loftið væri úr Tindastólsmönnum eftir þessa geggjun og Hester reyndar hvíldur. Keflvíkingar gengu á lagið og enn náðu þeir tíu stiga forystu á örskotsstundu. Þristar frá Pétri og Helga Margeirs komu Stólunum aftur inn í leikinn og enn á ný hófst ógurleg barátta. Reggie Dupree kom gestunum í 78-83 þegar tvær mínútur voru eftir en í kjölfarið skelltu Stólarnir í lás í vörninni. Hester gerði tvær körfur og minnkaði muninn í eitt stig og þegar 17 sekúndur voru eftir fékk Pétur tvö víti. Hann jafnaði leikinn með því að setja það fyrra niður en það seinna klikkaði og Keflvíkingar ruku upp með boltann. Hann var hirtur af Dupree þegar örfáar sekúndur voru eftir og Pétur komst inn í teig gestanna og náði að skófla boltanum upp í loftið áður en leiktíminn rann út – boltinn boppaði tvisvar á hringnum en ekki fór hann oní! Staðan 83-83 og því framlengt.

Magnús Már, sem hitti frábærlega í leiknum, gerði fimm fyrstu stigin í framlengingunni en enn á ný komu Stólarnir til baka. Hester jafnaði, 90-90, og síðan skiptust liðin á að skora. Helgi Viggós kom sínum mönnum síðan yfir, 96-94, þegar 20 sekúndur lifðu leiks en Maggi fékk tvö viti og jafnaði 96-96 þegar sex sekúndur voru eftir. Stólarnir náðu ekki að nýta tímann til að komast í færi og því var framlengt á ný. Nú voru nokkrir leikmenn búnir að spila talsvert lengi með fjórar villur og þar á meðal báðir kanarnir í liðunum. Það var því dýrkeypt þegar Hester fékk sína fimmtu villu, fyrir ruðning, strax í upphafi síðari framlengingarinnar og í kjölfarið lék Amin Khalil Stevens lausum hala en hann var gríðarlega sterkur í leiknum. Og nú áttu Stólarnir ekkert svar og Keflvíkingar lönduðu dýrmætum útivallarsigri og því ljóst að ef Stólarnir ætla áfram í einvíginu þá þurfa þeir að vinna að minnsta kosti einn leik í Keflavík og passa betur upp á Síkið.

Hester var stigahæstur Stólanna í kvöld með 30 stig, 12 fráköst og 12 fiskaðar villur. Pétur var lengi í gang en skilaði á endanum 26 stigum, sjö fráköstum og tíu stoðsendingum. Þá var Björgvin með 18 stig og átta stoðsendingar. Það vantaði upp á breiddina í liði Tindastóls í kvöld, þá sérstaklega vantaði meira sóknarframlag en varnarleikurinn var á köflum mjög góður. Reyndar voru aðeins sex leikmenn úr hvoru liði sem sáu um stigaskorið og 3ja stiga nýting gestanna var til fyrirmyndar, 14/30 á meðan hún var 11/40 hjá Stólunum. Þá má kannski segja að Keflvíkinga hafi unnið leikinn af vítalínunni en þar skutu þeir 93% (28/30) á meðan Stólarnir voru með 72% (29/40). Í liði Keflvíkinga var Magnús Már stigahæstur með 33 stig, Amin Stevens gerði 25 og Hörður Axel 19. Bæði lið eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna í kvöld.

Tölfræði af vef KKÍ >

Annar leikur liðanna verður í Keflavík á sunnudaginn og hefst kl. 19:15. Nú dugar ekkert nema gamla góða jaxlanagið – hendurnar standa nú þegar langt fram úr ermalausum búningunum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir