Loksins leikið í Bifröst á ný
Eftir fimm vikna æfingatörn frumsýnir Nemendafélag Fjölbrautaskóa Norðurlands vestra (NFNV) söngleikinn Footloose í Bifröst í næstu viku og brýtur þar með ísinn sem Covid-ástandið frysti og lagði yfir allt leiklistarstarf í Skagafirði síðustu tvö misseri. Sóttvarnir eru þó hafðar í heiðri, tveggja metra reglan og grímuskylda.
Upphaflega átti að sýna verkið í nóvember en vegna sóttvarnareglna var því frestað en svo vel vill til að sami mannskapur hélst svo ekkert stoppaði leikhópinn að byrja að æfa 5. janúar sl. Aðalhlutverk eru í höndum þeirra Inga Sigþórs Gunnarssonar, Guðnýjar Rúnu Vésteinsdóttur og Rannveigar Sigrúnar Stefánsdóttur.
Leikritið fjallar um unglingspiltinn Aron sem flytur ásamt móður sinni úr stórborg í smábæ þar sem yfirvöld hafa bannað rokktónlist og dans. Hann fær skólafélaga sína til að hjálpa sér við finna leið til að hægt sé dansa á lokaballi skólans en til þess þarf hann að leika á lögin og prest bæjarins sem hefur gert það að markmiði sínu að koma í veg fyrir þess lags ólifnað. Það sem flækir málin er að Aron verður hrifin af dóttur prestsins.
Að sögn Birgittu Bjartar Pétursdóttur, formanns nemendafélagsins, hafa æfingar gengið vel enda flottur hópur á ferð. Alls taka 16 leikarar þátt í sýningunni og fjöldi sem kemur að henni á ýmsan hátt. Búið er að staðfæra leikritið upp á Sauðárkrók sem gerir leikritið enn skemmtilegra. Leikstjórinn kemur frá Akureyri, Kolbrún Lilja Guðnadóttir, og nær hún vel til krakkanna að sögn Birgittu sem leiðir til þess að frábær sýning lifnar við á sviðinu í Bifröst.
Hvað sóttvörnum varði á sýningum segir Birgitta það best ef fólk pantar miða í hópum sem fær þá að sitja saman annars er tveggja metra reglan ráðandi og grímuskylda.
Miðasala hefst mánudaginn 15. febrúar og stendur milli klukkan 15-17 í síma 455-8070.
Myndirnar hér að neðan eru teknar af Birgittu Björt á leikæfingu í vikunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.