Light Up! Skagaströnd verður sunnudag og mánudag
Nú um helgina, dagana 23.-24. janúar, stóð til að lýsa upp janúar-skammdegið og halda ljósasýninguna Light Up! Skagaströnd en veðrið setur smá strik í reikninginn. Að sögn Vicki O'Shea hjá Nes listamiðstöð þá færist dagskráin aftur um einn dag og í stað þess að ljósadýrðin liti skammdegið laugardag og sunnudag þá verður sýningin kl. 18:00–21:00 sunnudag og mánudag.
Veðurspáin fyrir laugardag var allt annað en spennandi og þar sem koma þarf fyrir talsverðum tækjabúnaði til að skapa galdrana þá þótti ekki annað ráðlegt en að fresta um sólarhring en spáin fyrir sunnudag og mánudag er skapleg og ættu ljósin að njóta sín í dimmu janúarkvöldsins.
Í fréttatilkynningu frá Nes listamiðstöð segir: „Á íslenskum vetrum eru dagarnir stuttir og næturnar langar. Eftir að ljósaflóð jólanna er liðið hjá getur janúar virst vera dimmasti mánuður ársins og við þráum öll langa sólríka daga. Til að bjóða bjartara og skærara 2022 velkomið þá mun Nes listamiðstöð „lýsa upp“ Skagaströnd með þátttöku listamanna sem munu búa til allskonar listaverk með lýsingu. Það verður gert með því að nota LED ljós til að varpa birtu, búa til skugga, endurskin og fl. víða um Skagaströnd og með listagöngu fyrir íbúa Norðurlands vestra 22. og 23. janúar 2022 frá kl. 18.00 – 21.30.
Óáþreifanleiki ljóssins getur breytt skynjun okkar á hugtakinu „rými“ og Nes listamiðstöð hefur valið listamenn frá Austurríki, Hollandi, Grikklandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Kanada sem munu búa til stórar innsetningar og varpanir með því að nota ljós á frumlegan og skapandi hátt, einnig bjóða upp á gerð lukta með börnum og lýsandi vinnustofur.
Þessi viðburður er hannaður með þátttöku samfélagsins í huga til að breikka sýn okkar á hvað er „list“. Komdu í heimsókn til Skagastrandar meðan á viðburðinum stendur, gakktu um bæinn og bjóddu bjartara og skærara 2022 velkomið.“
Undanfarnar tvær vikur hefur NES listamiðstöð verið iðandi af lífi þar sem listamenn sem vinna að Light Up 2022 verkefnum sínum og nemendur frá Hofðaskóla taka þátt í vinnustofum með listakonunum Verenu Faist og Katharina Kamph þar sem búin eru til ljósmálverk og ljósker. Feykir fékk leyfi til að birta nokkrar myndir frá vinnunni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.