Kveðjur frá gömlum félögum á meistara Tindastóls
Í síðustu viku fagnaði Feykir nýkrýndum Íslandsmeisturum Tindastóls með fjögurra síðan umfjöllun í blaðinu. Meðal annars óskaði Feykir eftir því við nokkra þjálfara og leikmenn fyrri tíma að þeir sendu sínum gömlu liðsfélögum kveðju. Það reyndist auðsótt mál og allir sem haft var samband við voru til í það. Hér má því lesa góðar kveðjur frá Valla Ingimundar, Maddie Sutton, Kalla Jóns. Baldri Ragnars, Israel Martin og Brilla.
Valur Ingimundarson | Goðsögn:
Hver átti von á Covid? Enginn. Hver átti von á þessum ótrú-lega stuðning sem Tindastóll fekk? Enginn nema Króksarar. Mitt álit; tveir ótrúlegir hlutir sem við höfum ekki séð áður.Stuðningsmenn Tindastóls voru gjörsamlega frábærir, talandi um sjötta mann, vá! Arnar; hver átti von á honum þetta góðum og Pétur – báðir heimamenn – frábærir.
Liðið vel sett saman, hafandi besta liðsmann sem ég hef haft í mínu liði, Axel Kárason, og hetjuna Helga Rafn LeBronson. En fólkið sem hefur staðið á svölunum frá 1988 og verið með í að skrúbba sviðahausa og fleira er mér efst í huga, t.d. Bjössi á Borg og Lárus Dagur.
Pavel steig inn þegar vantaði þjálfara og á hann mikið hrós skilið sem og allt liðið og stuðningsmenn. Pavel er körfuboltamaður og veit um hvað þetta snýst, ómetanlegt að fá mann með reynslu í úrslitakeppni. Tindastóll var sér og sínu bæjarfélagi til mikils sóma og vonandi heldur þetta frábæra starf áfram að stækka.
Maddie Sutton | fyrrum leikmaður kvennaliðs Tindastóls
„Svo gaman að sjá karlaliðið koma heim með meistaratitilinn! Þeir verðskulduðu sigurinn. Ég veit hversu mikla vinnu liðið, þjálfarateymið og samfélagið lagði í að skapa sigurumhverfi. Ég er svo ánægð fyrir þeirra hönd að sjá allt smella saman! Ég óska liðinu og samfélaginu til hamingju með ótrúlegan árangur!“ segir Maddie sem horfði að sjálfsögðu á leikinn.
Karl Jónsson | með Tindastólshjarta
Þar kom að því! Það hefur verið ótrúlega skemmtileg fyrir gamlan Tindastólsleikmann og þjálfara að sjá titilinn koma loksins heim. Mikið vatn runnið til sjávar síðan liðið sem vann 2. deildina spilaði sína heimaleiki á Húnavöllum. Í áratugi hefur mörgu fræinu verið sáð og margir lagt hönd á plóg. Alltaf er mikilvægast að rækta sinn eigin garð, gefa heimakjarnanum tækifæri á að þroskast og eflast. Tindastóll hefur alið upp sterka leikmannakjarna í gegn um tíðina. Höldum því áfram, þar liggur grunnurinn að árangri. Til hamingju allir!
Israel Martin | Molduxi og fyrrverandi þjálfari Stólanna
Ég er mjög stoltur af Tindastóli og samfélaginu á Króknum. Ég hef fylgst með liðinu vaxa í gegnum árin og þrýsta á um að láta drauminn rætast – sem loksins varð að veruleika. Til hamingju með meistaratitilinn – þið áttuð hann skilinn. Áfram Tindastóll
Baldur Þór Ragnarsson | Fyrrverandi þjálfari Stólanna:
Vil óska Skagfirðingum öllum nær og fjær innilega til hamingju með Íslandsmeistara-titilinn 2023. Loksins kom hann, mikil þrautsegja og vilji skilaði þessu og get ég ekki nefnt annað félag sem á þetta jafn mikið skilið á þessum tímapunkti. Það gladdi mikið að sjá gamlingjana Helga Viggósson, Helga Margeirsson, Svavar Birgisson og Axel Kárason fá að upplifa það að vinna Íslandsmeistaratitil með sínu félagi, menn sem hafa helgað líf sitt boltanum nánast alla tíð. Helgi Rafn gefur út að hann sé hættur eftir 22 ár í meistaraflokki, þvílíkt afrek. Enn í dag leggur hann sig meira fram en ungu drengirnir á æfingum, ávallt grjótharður. Dagur formaður á skilið orðu frá samfélaginu, ávallt tilbúinn að finna leiðir til að gera hlutina betur og lætur ekki hindranir sem geta verið margar stoppa sig. Reikna með að hann byggi nýtt íþróttahús á Sauðárkróki næst svo hann geti verið með uppselda leiki fyrir 5000 manns. Frábært afrek hjá öllum sem tóku þátt, leikmenn, þjálfarar og stuðningsfólk. Til hamingju Tindastóll!
Brynjar Þór Björnsson | Íslandsmeistari í 3ja stiga skotum með liði Tindastóls:
Til hamingju Tindastóll með frábæran sigur. Virkilega gaman að sjá þá félag-ana Helga og Pétur taka við bikarnum langþráða. Mér þótti vænt um að sjá þá bræður Orra og Veigar vera þarna í hópnum eftir að hafa fengið að þjálfa þá aðeins á sínum tíma og sjá Ragnar koma svona sterkan inn í vetur. Ég æfði með honum haustið 2018 og sá þá strax mikla hæfileika. Gríska goðið Axel Kárason átti þetta auðvitað skilið eftir frábæran feril, frábær liðsfélagi og óþrjótandi vinnuhestur. Svo má ekki gleyma góðum vini mínum og liðsfélga til margra ára, Pavel Ermolinskij. En maðurinn sem átti þetta mest skilið kvaddi þennan heim því miður aðeins of snemma - Bjössi á Borg - þessi var fyrir þig!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.