Kosningar hafnar um sameiningar sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er hafin hjá sýslumönnum vegna kosninga um sameiningu sveitarfélaganna Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps annars vegar og Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Akrahrepps hins vegar, sem fram fara laugardaginn 19. febrúar nk. Greiða má atkvæði utan kjörfundar á skrifstofum embættisins á Blönduósi, aðalskrifstofu, Hnjúkabyggð 33 og á Sauðárkróki, sýsluskrifstofu, Suðurgötu 1, alla virka daga frá klukkan 9 til 15.
Í tilkynningu frá embætti sýslumannsins á Norðurlandi vestra kemur fram að miðvikudaginn 16. febrúar nk. verði opið til kl. 19:00 á báðum skrifstofum þess. Ef einhverjir óska eftir atkvæðagreiðslu í heimahúsi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, þarf að láta vita með sérstöku eyðublaði sem senda þarf á sýslumannsembættið eigi síðar en kl. 10 fimmtudaginn 17. febrúar nk.
Kosið verður á HSN Blönduósi og HSN Sauðárkróki í vikunni fyrir kjördag og verður það auglýst síðar.
Kjósendur skulu framvísa persónuskilríkjum við kosninguna.
Tekið er sérstaklega fram í tilkynningunni að hægt er að kjósa utan kjörfundar hjá öllum sýslumannsembættum landsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.