Königsberg kjötbollur og bökuð epli

Matgæðingarnir Marteinn Svanur og Saskia ásamt dótturinni Freyju Náttsól.
Matgæðingarnir Marteinn Svanur og Saskia ásamt dótturinni Freyju Náttsól.

Matgæðingar í 47. tbl. Feykis 2017 voru þau Marteinn Svanur Pálsson og Saskia Richter. Saskia er þýsk og Marteinn frá Blönduósi en þau eru búsett á Sauðárkróki ásamt litlu dótturinni Freyju Náttsól. Marteinn starfar hjá Steinull og Saskia á Hótel Tindastóli. Marteinn segir að þau hafi svona mátulega gaman af að elda. „Mér finnst ágætt að grilla og svona en Saskia eldar mjög mikið af alls konar mat og finnst skemmtilegast að elda gúllas eða graskerssúpu.“ 

AÐALRÉTTUR
Königsberg kjötbollur 

400 g nautahakk
125 g svínahakk
1 brauðsneið
1 egg
1 laukur
steinselja
salt, pipar og múskat
1 sítróna
sykur

Aðferð:
Leggið brauðið í bleyti í vatni í 30 mínútur. Saxið laukinn og steinseljuna og blandið saman við hakkið og brauðið ásamt egginu, pipar og múskati. Búið til bollur og sjóðið í saltvatni þar til þær eru eldaðar í gegn.

Sósan:
Bræðið smjör, hrærið hveiti út í og þynnið með soðinu af kjötbollunum. Bætið við sítrónusafa og sykri til að gera sósuna sæta og súra.
Svo bara fínt að hafa soðnar kartöflur með þessu. 

EFTIRRÉTTUR
Bökuð epli 

4 epli
2-3 matskeiðar sítrónusafi
40 g rúsínur
40 g grófmalaðar möndlur
kanilsykur
20 g smjör

Aðferð:
Hitið ofninn í 180 gráður. Skerið toppinn af eplinu og geymið hann. Fjarlægið steinana og skafið svo innan úr eplinu og skiljið eftir u.þ.b. 5 mm vegg. Blandið svo innihaldinu úr eplinu saman við sítrónusafa, kanil, rúsínur og grófmalaðar möndlur. Setjið það svo ofan í eplin og lokið aftur með toppnum. Látið smjör ofan á toppinn og bakið í u.þ.b. 40 mínútur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir