Júdódeild Tindastóls býður upp á blandaðar bardagalistir

Mynd: Frá Jólamóti Júdódeildar Tindastóls 2016. Mynd Jóhanna Ey Harðardóttir.
Mynd: Frá Jólamóti Júdódeildar Tindastóls 2016. Mynd Jóhanna Ey Harðardóttir.

Júdódeild Tindastóls hefur vakið mikla athygli fyrir starfsemi sína undanfarin misseri og er engan bilbug að finna hjá deildinni fyrir komandi vetur. Vetrarstarfið hefst í  dag 18. september en einnig er ætlunin að bjóða upp á blandaðar bardagalistir.

Samkvæmt tilkynningu frá deildinni verða fjórar júdóæfingar í viku fyrir alla aldurshópa og fara æfingar fram í íþróttahúsinu á Sauðárkróki líkt og á síðasta starfsári. Júdóæfingum verður ekki skipt upp eftir aldri að þessu sinni, heldur æfa allir aldurshópar saman samkvæmt æfingatímatöflu.

Þá verður sú nýjung í starfi deildarinnar að boðið verður upp á þriggja lotu námskeið í blönduðum bardagalistum á haustönn fyrir 12 ára og eldri. Hver lota samanstendur af þremur æfingum í Jujitsu, Kickboxi eða Boxi. Námskeiðið er því samtals níu æfingar sem fara fram á fimmtudögum klukkan 20:20 – 21:45 samkvæmt æfingatímatöflu. Þetta námskeið er frítt fyrir júdóiðkendur og er fjöldi þátttakenda takmarkaður.

Þjálfarar eru: Einar Örn Hreinsson (Júdó), Arnar Már Elíasson (Jujitsu), Magnús Freyr Gíslason (Jujitsu), Judith Bischof (Kickbox), Erla Guðrún Hjartardóttir (Kickbox, Box) og Jón Kolbeinn Jónsson (Box).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir