Jólamót Molduxa og Styrktar- og skemmtikvöld
Jólamót Molduxa 2015 verður haldið í dag, annan í jólum, en allur ágóði af mótinu rennur til Körfuknattleiksdeildar Tindastóls. Í kvöld blæs körfuknattleiksdeildin til fagnaðar á Kaffi Krók en hápunktur kvöldsins verður þegar frumflutt verður nýtt stuðningsmannalag félagsins.
Jólamótið verður sett kl. 11:55 og hefjast fyrstu leikir kl. 12:00. Samkvæmt Facebook-síðu Molduxa eru 18 lið skráð til leiks en fram kemur að ekki komust öll lið að sem vildu að í þetta sinn og sitja Molduxarnir sjálfir hjá í fyrsta skipti.
„Búið er að birta leikjaniðurröðun á grúppu hér á Facebook sem heitir Jólamót Molduxa. Þar munu svo úrslit og næstu umferðir birtast. Mikilvægt er að liðin séu klár á tímasetningum og hafi með sér leikgleðina og prúðmennskuna,“ segir á Facebook-síðunni.
Nýtt stuðningsmannalag frumflutt í kvöld
Styrktar- og skemmtikvöldið hefst á Kaffi Krók kl. 20:30. Boðið verður upp á léttar veitingar og haldið verður happdrætti og uppboð með spennandi vinningum til styrktar Körfuknattleiksdeildarinnar. Sem fyrr segir verður hápunktur kvöldins þegar frumflutt verður nýtt stuðningsmannalag félagsins en flytjandi þess er einn heitasti söngvari landsins þessa stundina.
„Upplagt er að byrja daginn í Íþróttahúsinu og horfa á heimsklassa körfuknattleik því að Molduxamótið er einnig annan í jólum byrjar það kl. 12:00, það er eitthvað sem engin má láta framhjá sér fara. Mætum nú sem flest og höfum gaman saman og styðjum gott málefni í leiðinni,“ segir á síðunni. Miðaverð 3500 kr.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.