Jafntefli Tindastólsmanna á Villa Park
Tindastólsmenn brunuðu austur á Egilsstaði í gær þar sem þeir öttu kappi við lið Hugins/Hattar á Vilhjálmsvelli í rjómablíðu austfirska sumarsins. Þetta voru fyrstu leikir liðanna að lokinni COVID-pásunni og var lið Tindastóls í þriðja sæti en heimamenn voru í næstneðsta sæti. Engin breyting varð á stöðu liðanna að leik loknum því liðin skiptu stigunum á milli sín en lokatölur voru 1-1 eftir að Stólarnir jöfnuðu enn eina ferðina í uppbótartíma.
Markalaust var í hálfleik en á 51. mínútu kom Jesús inn á hjá heimamönnum og mínútu síðar uppskáru Austirðingarnir fyrsta mark leiksins sem Þorlákur Baxter gerði. Eftir þetta settu Stólarnir í annan gír og gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin. Markið lét bíða eftir sér en eftir laglegan snúning Konna á miðjum vellinum náðu Stólarnir góðri sókn sem lauk með því að Luke Rae fékk boltann inni á vítateig Hugins/Hattar og Petar Mudresa braut á honum. Dómari leiksins dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu og sýndi varnarmanni heimamanna rauða spjaldið. Luke skoraði síðan af öryggi úr spyrnunni á 92. mínútu og jafnaði þar með metin. Stólarnir náðu einni ágætri sókn áður en flautað var af en náðu ekki að krækja í stigin þrjú.
Sem fyrr segir er lið Tindastóls í þriðja sæti 3. deildar með 16 stig að loknum níu leikjum, hafa unnið fjóra leika, gert fjögur jafntefli og tapað einum leik. Reynir Sandgerði er langefst með 23 stig og hefur enn ekki tapað leik en í öðru sæti er lið KV úr Vesturbænum með 18 stig og á einn leik til góða. Þremur umferðum var að mestu frestað í 3. deildinni í COVID-pásunni og ekki hefur enn verið ákveðið hvenær þeir leikir verða spilaðir. Næsti leikur Tindastóls er nk. laugardag en þá koma Vængir Júpíters í heimsókn.
Jamie ánægður með leik Stólanna
Jamie McDunough, þjálfari Tindastóls, var sáttur með leik liðsins en hann segir lið Tindastóls hafa verið með boltann 75% leiktímans og heimamenn hafi aðeins skapað sér tvö færi í leiknum. „Við erum svekktir með markið sem þeir skoruðu. Það er í eina skiptið í leiknum sem við gerðum mistök í vörninni og þeir refsuðu okkur. Þeir sköpuðu sér tvö færi, eitt úr aukaspyrnu af löngu færi og markið. En svona er fótboltinn! Frammistaðan eftir markið var frábær. Við sýndum karakter aftur, héldum áfram að spila okkur leik til loka og náðum að skora markið sem við áttum skilið. Þetta lið veit ekki hvernig á að tapa – sem er mikil breyting frá því fyrir ári síðan! Luke Rae átti mjög erfiðan dag en leikplan heimamanna gekk út á að koma í veg fyrir að hann og Benjamin fengju eitthvert pláss,“ segir Jamie sem engu að síður er gríðarlega ánægður með Luke og hældi honum fyrir að krækja í vítið og halda rónni þegar kom að því að framkvæma spyrnuna. „Strákurinn er bara 19 ára! Það þarf sterkar taugar að klára undir þessum kringumstæðum.“
Þá var Jamie ánægður að hafa endurheimt Fannar Örn Kolbeinsson en hann skipti yfir í Magna sl. vetur. „Það er frábært að fá Fannar Örn aftur. Hann er einstaklingur sem er frábært að hafa í liðinu og hefur reynslu sem við munum þurfa á að halda næstu tvo mánuðina.“ Aðeins 15 leikmenn voru í hóp Tindastóls í gær og segir Jamie að Stólarnir þurfi að bæta við sig leikmanni eða leikmönnum til viðbótar við Fannar en Michael Ford og Halldór Broddi eru á förum. „Þannig að við erum í vandræðum ef menn meiðast eða lenda í leikbönnum,“ segir Jamie að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.