Íbúum Norðurlands vestra fjölgar um 1%
Íbúar Norðurlands vestra voru 7.398 samkvæmt tölum þjóðskrár um íbúafjölda eftir sveitarfélögum þann 1. janúar síðastliðinn og hefur þeim fjölgað um 71 frá 1. desember 2019 þegar þeir voru 7.327 talsins. Fjölmennasta sveitarfélagið á svæðinu er Sveitarfélagið Skagafjörður með 4.084 íbúa en Skagabyggð er fámennust með 92 íbúa þann 1. janúar síðastliðinn. Íbúum fækkaði í einu sveitarfélagi, Skagaströnd þar sem þremur færri bjuggu nú en fyrir rúmu ári síðan.
Íbúum hefur fjölgað mest í Sveitarfélaginu Skagafirði eða um 47 íbúa, úr 4.037 í 4.084, sem nemur 1,2% en hlutfallslega er mest fjölgun í Akrahreppi þar sem fjölgaði um fimm íbúa, úr 205 í 210. Íbúum Húnaþings vestra fjölgaði um tíu manns, voru 1.210 en eru nú 1.220 sem er fjölgun um 0,8% og á Blönduósi fjölgaði um átta, úr 942 í 950 sem er einnig 0,8 % fjölgun. Íbúum Skagastrandar fækkaði um þrjá, fóru úr 473 í 470 sem er fækkun um 0,6%. Í Skagabyggð fjölgaði um tvo eða 2,2% en þar eru nú 92 íbúar sem fyrr segir og í Húnavatnshreppi fjölgaði einnig um tvo, úr 370 í 372 eða 0,5%.
Sé horft til alls landsins er fjölgunin mest í Reykjavík þar sem fjölgað hefur um 2.133 íbúa á tímabilinu en mest fækkaði í Hafnarfirði eða um 305 íbúa. Íbúum Fljótsdalshrepps fjölgaði hlutfallslega mest síðastliðið ár eða um 14,0% en íbúum þar fjölgaði þó einungis um 12 íbúa eða úr 86 í 98 íbúa. Íbúum fækkaði hlutfallslega mest í Reykhólahreppi um 9,9% og Svalbarðsstrandarhreppi um 8,5%.
Mest hlutfallsleg fjölgun var á Suðurlandi eða um 1,8% eða um 570 íbúa. Lítilsháttar fækkun varð í einum landshluta, á Vestfjörðum og nam fækkunin á Vestfjörðum 0,1% eða um 7 íbúa. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 1,5% eða um 3.495 íbúa.
Hér er skrá yfir fjölda íbúa eftir sveitafélögum og samanburð við íbúatölur frá 1. desember 2018 og 2019.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.