Húnvetningar í toppmálum

Þrennu-Benni reimaði á sig skotskóna í gær. MYND AF SÍÐU KORMÁKS/HVATAR
Þrennu-Benni reimaði á sig skotskóna í gær. MYND AF SÍÐU KORMÁKS/HVATAR

Keppni í 3. deild karla í knattspyrnu er geysi jöfn og skemmtileg en fimm lið eru í einum haug á toppi deildarinnar og þar á meðal lið Kormáks/Hvatar sem situr, þegar þetta er skrifað, á toppi deildinnar með 17 stig eftir níu umferðir. Húnvetningar gætu þó þurft að gefa toppsætið eftir síðar í dag þegar þrír síðustu leikir umferðarinnar verða spilaðir. Í gær sótti Kormákur/Hvöt heim þáverandi topplið deildarinnar, Árbæ, og gerði sér lítið fyrir og sigraði 1-3 þar sem Benni fór á kostum og gerði öll mörk gestanna.

Árangur Kormáks/Hvatar er eftirtektarverður m.a. fyrir þær sakir að liðið hefur þegar skipt um þjálfara en Ingvi Rafn tók við taumunum af Aco Pandurevic að þremur umferðum loknum en liðið var þá með þrjú stig eftir einn sigur og tvö töp. Síðan hefur liðið ekki tapað leik. Þá er magnað að lið sem kom seint saman til undirbúnings skuli vera á toppnum og gefur vonir um að endaspretturinn verði áhugaverður.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum heimasíðu Kormáks/Hvatar voru gestirnir skeinuhættari í fyrri hálfleik og uppskáru mark á 39. mínútu þegar Benni renndi boltanum í mark heimamanna eftir sendingu frá Goran. Árbæingar jöfnuðu metin með marki Arons Breka Aronssonar eftir fjögurra mínútna leik í síðari hálfleik en Benni kom sínum mönnum yfir á ný á 56. mínútu. Ingvi Rafn flikkaði boltanum til Benna eftir innkast og hann setti boltann glæsilega framhjá frosnum markverði heimamanna. Þriðja og síðasta mark gestanna gerði Benni síðan með glæsiskoti af 35 metra færi.

Sem fyrr segir er 3. deildin mjög jöfn og spennandi og þar getur allt gerst. Lið Kormáks/Hvatar er með 17 stig eftir níu leiki, hefur unnið fimm, gert tvö jafntetli og tapað tveimur leikjum. Árbær er sömuleiðis með 17 stig og síðan eru lið Reynis Sandgerði og Víðis Garði með 16 stig en þau eiga bæði leik í dag og gæti lyft sér upp fyrir Húnvetningana. Það er í það minnsta ljóst að það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir