Hlutabótaleiðin framlengd um tvo mánuði og áframhaldandi greiðslur vegna launa í sóttkví
Ríkisstjórnin samþykkti í gær frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um breytingu á lögum er varða vinnumarkaðinn til að mæta efnahagslegum áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins. Með frumvarpinu mun réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fara úr þremur mánuðum í sex mánuði, enda séu ákveðin skilyrði uppfyllt, og hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði. Greiðslur launa vegna einstaklinga í sóttkví munu einnig halda áfram.
Markmiðið með framlengingu á rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði er að komið til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi vegna Covid-19 faraldursins og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri. Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði tekur gildi þegar lögin verða samþykkt og gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta réttinn fyrir 1. október 2021.
Réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfali vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, hlutabótaleiðin, hefur verið lengdur til 31. október 2020. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að ekki séu lagðar til efnislegar breytingar en samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 50 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðarlaun fá fullar bætur á móti skertu hlutfalli í vinnu.
Þá verða tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir, samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, heimilaðar áfram á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.
„Ég held að okkur sé það öllum ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði muni vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum gert ráð fyrir því að fjöldaatvinnuleysi muni dragast á langinn. Það er því gríðarlega mikilvægt að við tryggjum stöðu heimilanna við þessar krefjandi aðstæður og stöndum með fjölskyldum landsins, og það erum við að gera með þessum aðgerðum,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.