Hélt upp á Heiðubækurnar sem barn
Elsa Stefánsdóttir var gestur Bók-haldsins í 21. tölublaði síðasta árs. Þær eru ófáar bækurnar sem um hendur hennar fara en hún starfar sem bókavörður í skólabókasafninu á Hofsósi og við Hofsóssdeild Héraðsbókasafnsins. Elsa les einnig mikið og segir hún að skáldsögur verði oftast fyrir valinu þó ein og ein ævisaga slæðist með.
Hvers konar bækur lestu helst?
Skáldsögur, íslenskar og erlendar og einstaka ævisögur ef mér sýnist þær vera áhugaverðar.
Hvaða bækur voru í uppáhaldi hjá þér þegar þú varst barn?
Þær fyrstu sem ég man eftir voru bækurnar um Heiðu eftir Jóhönnu Spyri. Einnig las ég allt sem ég náði í eftir Enid Blyton, Ármann Kr. Einarsson, Jennu og Hreiðar Stefánsson og einhverja fleiri sem ég man ekki nöfnin á. En ég las allt sem hönd á festi.
Hver er uppáhaldsbókin af þeim sem þú hefur lesið gegnum tíðina?
Það er ekki svo gott að segja, hver eða hverjar eru í uppáhaldi. En bókin Veröld víð og svo bækur Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu eru athyglisverðar. Einnig bók Böðvars Guðmundssonar Híbýli vindanna/Lífsins tré.
Hver er þinn uppáhaldsrithöfundur og hvers vegna?
Á engan uppáhalds, en les mikið af bókum eftir Guðrúnu frá Lundi, Jónínu Leósdóttur, Indriða G. Þorsteinsson, Vilborgu Davíðsdóttur, Arnald lndriðason, Ragnar Jónasson og fleiri. Einnig les ég mikið sænskar sakamálasögur og þá helst á frummálinu.
Hvaða bækur eru á náttborðinu hjá þér þessa dagana?
Þær eru nokkrar, ég er að lesa Sölvasögu unglings og Sölvasögu Daníelssonar eftir Arnar Má Arngrímsson. En einnig eru bækurnar: Hin ósýnilegu, Morðið í Snorralaug, Ekki vera sár, Andlitslausa konan og Det som göms i snö, i stafla þar, því ég á eftir að skila þeim.
Ertu fastagestur á einhverju bókasafni?
Já, það má segja það því ég vinn á skólabókasafni Grunnskólans austan Vatna og einnig hjá Hofsóssdeild Héraðsbókasafnsins.
Áttu þér uppáhaldsbókabúð?
Nei, sama hvaðan gott kemur, það væri samt gaman að fara og skoða bókabúðina á Flateyri.
Hvað áttu margar bækur í bókahillunum heima hjá þér?
Við eigum u.þ.b. 500 í bókahillum og kannski um 150 ofan í kössum.
Hvað kaupirðu eða eignast að jafnaði margar nýjar bækur yfir árið?
Kaupi engar nema til gjafa og það er mjög misjafnt hvað það eru margar bækur.
Eru ákveðnir höfundar/bækur sem þú færð „alltaf“ í jólagjöf?
Fæ ekki lengur bækur í gjöf nema þá handavinnubækur og mörg árin er engin.
Hefur einhver bók sérstakt gildi fyrir þig?
Já, það er sálmabókin sem foreldrar mínir gáfu mér þegar ég var fermd.
Hefur þú heimsótt staði sem tengjast bókum eða rithöfundum þegar þú ferðast um landið eða erlendis?
Nei ekki enn, en það væri gaman að fara með Kristínu S. Einarsdóttur á slóðir Guðrúnar frá Lundi eða í Vestur-Húnavatnssýsluna á slóðir Agnesar og Friðriks. Náðarstund.
Ef þú ættir að gefa einhverjum sem þér þykir vænt um bók, hvaða bók yrði þá fyrir valinu?
Í augnablikinu er engin sem mér dettur í hug. (Ég bíð bara eftir að Dísa og Villi gefi út myndabók sem væri ljóðskreytt af Siggu, systur Dísu!)
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.