Hátíðarbragur yfir setningu Sæluviku
Sæluvika Skagfirðinga, ein elsta lista- og menningarhátíð landsins, var sett í Safnahúsinu á Sauðárkróki í gær en á sama tíma var þar opnuð ljósmyndasýning sem sýnir hluta af myndasafni Kristjáns C. Magnússonar.
Það var hátíðarbragur yfir opnun sýningarinnar og setningu Sæluviku en þar var boðið upp á freyðivín og Fúsi Ben og Sigurlaug Vordís sungu ljúfa tóna fyrir gesti. Þá mættu nokkrir Skagfirðingar prúðbúnir til opnunarinnar íslenskum þjóð- og hátíðarbúningum.
Það var Stefán Vagn Stefánsson formaður byggðarráðs Svf. Skagafjarðar sem átti heiðurinn að því að setja Sæluvikuna formlega. Sæluvikan stendur yfir frá 28. apríl til 5. maí en allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi þessa miklu menningarviku. Sæluvikudagskráin hefur verið send inn á hvert heimili í Skagafirði en einnig er hægt að nálgast hana hér á netinu.
Unnar Ingvarsson héraðsskjalavörður Skagfirðinga sá um að opna ljósmyndasýninguna og sagði við tilefnið nokkur orð um Kristján sem var stórtækur áhugaljósmyndari á 20. öld. Kristján tók fjölmargar myndir af íbúum Sauðárkróks við leik og störf, húsum og ýmsum framkvæmdum. Nú er hægt að bera hluta af safni hans augum í Safnahúsinu en Unnar sagði í ræðu sinni að til stæði að skipta einhverjum myndum út sem þar hanga og verður sýningin því lifandi í Safnahúsinu í sumar.
Hjalti Pálsson formaður Sögufélags Skagfirðinga tilkynnti hverjir höfðu unnið Vísnakeppnina 2013 en bestu botnana átti einn og sami maðurinn, Guðmundur Kristjánsson á Akranesi. Bestu vísuna átti Kristín S. Guðjónsdóttir íbúi á dvalarheimilinu Hrafnistu í Reykjavík. Nánar verður fjallað um Vísnakeppnina í næsta tölublaði Feykis.
Hér eru nokkrar myndir frá deginum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.