Gul veðurviðvörun í gildi til morguns
Gul veðurviðvörun er nú í gildi fyrir Strandir og Norðurland vestra og gildir hún til klukkan ellefu í fyrramálið, mánudaginn 21. desember. Í spá Veðurstofu Íslands er gert ráð fyrir norðaustan hvassviðri með vindhraða á bilinu 13-20 m/s. Reiknað er með talsverðri snjókomu eða éljagangi með skafrenningi og lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Færð á vegum er misgóð. Ófært er um Þverárfjall og Siglufjarðarvegur frá Ketilási er lokaður vegna snjóflóðahættu. Þæfingsfærð er milli Hofsóss og Ketiláss og snjóþekja er á Skagastrandarvegi og á milli Sauðárkróks og Hofsóss. Á öðrum vegum er víðast hálka eða hálkublettir.
Nánari upplýsingar um færð á vegum má nálgast á vef Vegagerðarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.