Grænfáninn dreginn að húni í Varmahlíðaskóla
Umhverfishátíð var haldin í blíðskaparveðri í Varmahlíðarskóla í gær í tilefni af því að Grænfánanum var flaggað í fyrsta sinn við skólann. Að sögn Ágústs Ólasonar skólastjóra hefur verið unnið að umhverfisverkefninu með hléum í 13 ár, frá árinu 2000, en blásið var undir vængi verkefnisins þegar Ágúst kom til starfa og sótt var um Grænfánann um sl. áramót.
Fulltrúi frá Landvernd kom í heimsókn og tók skólann út og í kjölfarið var þeim tilkynnt að þau fengju Grænfánann. „Sækja þarf um Grænfánann á tveggja ára fresti og halda verkefninu lifandi með nýjum markmiðum,“ segir Ágúst. Á meðal þess sem nemendur og starfsfólk skólans hafa unnið að sl. ár er t.d. að flokka rusl, tengja umhverfið við námsgreinarnar og að vekja athygli á umhverfisverkefnum.
Ákveðið var að halda umhverfishátíð á sama tíma og fánanum yrði flaggað og var nemendum skipt í sex aldursblandaða hópa sem fóru í sex stöðvar en allar stöðvarnar áttu það sameiginlegt að miða að því að auka umhverfisvitund barnanna.
Anna Árnína Stefánsdóttir leikskólastjóri Tröllaborgar og Christine Hellwig afhentu Grænfánann en Tröllaborg hefur fengið hann tvisvar. Þá var var Írisi Olgu Lúðvíksdóttur veitt sérstök viðurkenning við athöfnina en Ágúst sagði hana vera sérstakan frumkvöðul í innleiðingu umhverfisvitundar við skólann. Að athöfninni lokinni var öllum boðið í matsal skólans að þiggja heitt kakó og kleinur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.