Góður árangur Arnars Geirs í Ameríku
Arnar Geir Hjartarson, golfleikarinn knái frá Sauðarkróki, stundar nú nám í Bandaríkjunum auk þess að leika golf með skólaliði sínu í Missouri Valley College. Hann náði mjög góðum árangri í síðustu viku á tveimur mótum, varð annars vegar í 1. sæti og hins vegar í því 8.
Fyrra mótið fór fram þann 14. september þar sem 18 holur voru spilaðar. Mótið heitir Graceland Invitational og völlurinn Lamoni Golf & Country Club í Lamoni í Iowa. Þar varð Arnar Geir í efsta sæti ásamt öðrum á einu höggi undir pari, alls 71 högg og skólinn hans Missouri Valley College sigraði í mótinu. Að sögn Hjartar Geirmundssonar, föður Arnars, voru 58 keppendur sem kepptu á mótinu frá nokkrum skólum en yfirleitt eru fimm í hverju liði og sumir eru með A og B lið.
HÉR er slóð á úrslitin í mótinu
Þann 18.-19. september spilaði Arnar Geir svo á öðru móti, Evangel Fall Invitational, sem var tveggja daga mót, og fór fram á Rivercut Colf Course vellinum í Springfield Missouri. Þar endaði Arnar í 8. sæti ásamt nokkrum öðrum á 149 höggum ( 74 og 75 ) en 65 þátttakendur voru í mótinu og skólinn hans endaði í öðru sæti, einungis einu höggi á eftir efsta sætinu.
HÉR er slóð á úrslitin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.