Gera fýsileikakönnun um almenningssamgöngur á Norðurlandi vestra
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri hafa gert með sér samstarfssamning um vinnu við að kanna fýsileika þess að koma á fót almenningssamgöngum á vinnusóknarsvæðum á Norðurlandi vestra. SSNV hlutu í haust styrk úr A-10 lið í byggðaáætlun - Almenningssamgöngur um land allt, sem nemur 2.9 milljónum króna til að vinna könnunina en áætlað er að niðurstaða liggi fyrir í lok fyrsta ársfjórðungs þessa árs.
Á vef Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra segir að markmiðið sé að komast að því hvort þörf sé á almenningssamgöngum í landshlutanum. Ef svo er, hvaða aðilar myndu nýta sér þær, á milli hvaða staða er mest þörf á almenningssamgöngum og hvernig hugsanlegt sé að útfæra samgöngurnar svo þær nýtist sem best? Leitast verður við að finna leiðir sem mæta þeim þörfum sem fram koma í greiningu með hagkvæmum og markvissum hætti. Horft verður sérstaklega til nýrra leiða sem kunna að mæta þeim markmiðum.
Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri leitar að viðmælendum sem sækja daglega vinnu á Norðurlandi vestra og gætu e.t.v. nýtt sér almenningssamgöngur innan svæðisins væru þær fyrir hendi. Tekin verða viðtöl við lykilmanneskjur í Austur-Húnavatnssýslu, Skagafirði og Vestur-Húnavatnssýslu. Einnig er stefnt að því að taka þrjú rýnihópaviðtöl með u.þ.b. sex viðmælendum á hverju svæði.
Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við kolfinna@ssnv.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.