Garðveisla hjá Tindastólsmönnum

Kenneth Hogg gerði þriðja mark Tindastóls úr víti.  MYND: ÓAB
Kenneth Hogg gerði þriðja mark Tindastóls úr víti. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls gerði góða ferð í Garðinn á föstudagskvöldið þar sem þeir öttu kappi við lærisveina Tommy Nielsen í Víði á Nesfisk-vellinum. Um toppleik í deildinni var að ræða en bæði lið voru með 15 stig fyrir leikinn en Víðismenn höfðu spilað leik minna og voru taplausir. Þeir eru það ekki lengur því Stólarnir tóku þá 0-3.

Ragnar Þór Gunnarsson, sem hefur verið skeinuhættur upp við mark andstæðinganna það sem af er sumri, gerði fyrsta mark leiksins strax á 9. mínútu og Benjamín Gunnlaugarson bætti öðru marki við fyrir Stólana á 24. mínútu og staðan 0-2 í hálfleik.  Kenneth Hogg gerði síðan mark úr víti á 76. mínútu og þar við sat.

Frábær sigur og ekki oft sem Tindastólsmenn hafa getað slegið upp veislu í Garðinum. Stólarnir eru nú toppliðið í 3. deildinni og ágætur svipur á liðinu það sem af er sumri. Um næstu helgi spila strákarnir á sunnudegi og hefst sá leikur kl. 12:00 á Sauðárkróksvelli en þá kemur lið KFS (Knattspyrnufélagið Framherjar-Smástund frá Vestmannaeyjum í heimsókn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir