Flugeldur kveikti sinueld í Litlaskógi

Svo vel vildi til að brunasvæðið var ekki víðáttumikið og hagstætt veður fyrir slökkvilið að ráða niðurlögum eldsins sem hafði læst sig í sinu og visnaða lúpínu. Töluverðan reyk lagði upp af eldinum sem vakti athygli Króksara. Myndir: PF.
Svo vel vildi til að brunasvæðið var ekki víðáttumikið og hagstætt veður fyrir slökkvilið að ráða niðurlögum eldsins sem hafði læst sig í sinu og visnaða lúpínu. Töluverðan reyk lagði upp af eldinum sem vakti athygli Króksara. Myndir: PF.

Mikinn reyk lagði upp úr Litlaskógi á Sauðárkróki seinni partinn í gær þar sem eldur logaði í sinu og visinni lúpínu. Kviknað hafði í út frá flugeldi sem stefnulaust endaði í brekkunni ofan gömlu sundlaugarinnar en krakkar höfðu tekið prikið af flugeldinum og tendrað. „Þegar þeir kveikja í honum fer hann bara út í loftið og lendir þarna í hlíðinni svo berst eldurinn í sinuna og lúpínuna sem er þarna. Þetta var bara fikt,“ segir Svavar Atli Birgisson, slökkviliðsstjóri.

„Við komum og slökkvum og gekk bara fínt, veður var hagstætt sem bjargaði ýmsu. Ég hefði ekki boðið í þetta ef það hefði verið vindur, þá hefði þetta farið hraðar yfir,“ segir Svavar en brunavettvangur var mikið þurrari en hann bjóst við.

„Ég átti ekki von á því að það væri svona þurrt, ekki á þessum árstíma því snjórinn er nýfarinn. Þetta eru mjög varasamar aðstæður.“

Svavar segir að þokkalega hafi gengið að komast að svæðinu en hægt var að aka norðan Sauðárgilsins. Telur hann að ef eldurinn hefði verið ofar hefði verið erfiðara að komast að vegna aurbleytu.

„Það má segja að þetta hafi gerst á góðum stað, í brekkunni beint upp af sundlauginni gömlu. Eldurinn var að nálgast trén en ef hann hefði farið inn í trjágróðurinn þá hefðu slökkvistörf tekið meiri tíma og orðið erfiðara verkefni. Þetta gerist mjög hratt,“ segir Svavar.

Hafa sinubrunar verið vandamál?

„Við höfum ekki verið í miklum vandræðum á okkar svæði en áttum við tvo, þrjá í fyrra. Þetta kemur upp öðru hvoru en menn eru í bölvuðum vandræðum víða á landinu með þetta.“ Svavar segir fólk almennt ganga vel um og slökkviliðið blessunarlega sloppið við gróðurelda út frá einnota grillum sem víða annars staðar eru skilin eftir og geta þannig valdið tjóni. „Hins vegar hef ég séð nokkur einnota grill í Litlaskógi, sem er ekki í boði. Þau voru á víð og dreif en ekki á því svæði sem hugsuð eru í þetta,“ segir Svavar.

Ávallt er ástæða til að hvetja fólk að fara varlega með eld, ekki síst núna þegar gróður er þurr í vorblíðunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir