Fjörugur hópur setur Koppafeiti aftur á svið

Nemendur Varmahlíðarskóla ætlar að setja Koppafeiti, öðru nafni Grease, á svið á ný föstudaginn 18. janúar nk. en leikritið var áður sýnt í tilefni af árshátíð eldri nemenda Varmahlíðarskóla þann 14. desember sl. Leikstjórn annaðist Helga Rós Sigfúsdóttir. Feykir tók þrjá leikara sýningarinnar tali í desember sl. og spurði Evu Berglindi, Jóndísi og Hákon Inga um hlutverk þeirra og hvernig hefur gengið á æfingum, sem hófust þann 3. desember.

Að sögn Evu Berglindar Ómarsdóttur sem fer með hlutverk Krissu, eða Rizzo, þá höfðu margir nemendurnir haft augastað á Grease frá því í 1. bekk, þó svo allir hafi ekki verið sammála. Jóndís Hinriksdóttir, sem fer með hlutverk Sandí, segir að Grease hafi loks orðið fyrir valinu eftir langar deilur og umræður.

Jóndís leikur Sandí/Sandy

Hvernig hefur gengið á æfingum?

Við byrjuðum að æfa 3. desember og það er búið að ganga alveg rosa vel! Flest allir mjög jákvæðir og vinnusamir. Það er grín og gleði á æfingum, mikið hlegið og haft gaman. Þrátt fyrir það að það voru ekki allir sem vildu Grease í upphafi þá er æðislegt hvað allir taka því vel núna og leggja sig fram í að gera þetta vel. Leikstjórinn er frábær og nær vel til allra.

Hvernig finnur þú þig í þínu hlutverki, áttu eitthvað sameiginlegt með Sandí?

Ég leik Sandí sem er ótrúlega skemmtilegt. Ég sjálf og persónan Sandí erum frekar ólíkar sem er bara ennþá skemmtilegra. Sandí er voða saklaus og stillt, ég er þó ekkert voða villt en samt ekki eins saklaus og Sandí á að vera haha. Systur minni finnst ég líkari persónunni Krissu (Rizzo). Það er ekki satt.

Hvað finnst þér skemmtilegast við að leika Sandí?

Skemmtilegast við það að leika Sandí er þegar hún breytist snöggt úr lítilli, saklausri stúlku í mestu gelluna! Og að fá að syngja Ég vil vera með þér (You're the One That I Want) er æði. Ég syng mikið en dansa lítið.

Hákon Ingi leikur Danna/Danny

Hvernig hefur gengið á æfingum?

Okkur gengur mjög vel með æfingarnar og stemningin er alveg gríðarleg enda erum við að vinna í alveg svakalega fjörugum hóp og eru brandararnir á hverju strái.

Hvernig finnur þú þig í þínu hlutverki, áttu eitthvað sameiginlegt með Danna?

Ég held ég eigi ósköp lítið sameiginlegt með persónunni minni en ég finn mig samt bara nokkuð vel í hlutverkinu.

Hvað finnst þér skemmtilegast við að leika Danna?

Ég veit eiginlega ekki hvað er skemmtilegast við persónuna mína það er í rauninni bara lang skemmtilegast að fara þarna upp á svið og vera eitthvað að fíflast.

Syngur þú eða dansar?

Ég bæði syng og dansa og hef gaman af því.

Eva Berglind leikur Krissu/Rizzo

Hvernig hefur gengið á æfingum?

Æfingar hafa gengið mjög vel hingað til, eiginlega alveg ótrúlega vel. Stemningin er mjög mikil, seinustu daga hefur verið mikið hlegið og ég held alveg örugglega að allir skemmti sér jafn vel og ég.

Hvernig finnur þú þig í þínu hlutverki, áttu eitthvað sameiginlegt með Krissu?

Mér finnst fínt að vera í þessu hlutverki, það er ótrúlega krefjandi, ég þarf alltaf að vera neikvæð og helst á móti öllu. Ég má nánast ekkert brosa allt leikritið og þarf að passa mig að halda alltaf andliti (sem er ekki alveg það léttasta sem ég geri). Mér sjálfri finnst ég ekki eiga mikið sameiginlegt með persónunni sem ég leik.

Hvað finnst þér skemmtilegast við að leika Krissu?

Mér finnst skemmtilegt hvað það er krefjandi og hvað ég þarf alltaf að vera í karakter. Ég elska að syngja og fæ að syngja lag sem mér finnst rosalega gaman að syngja.

Syngur þú eða dansar?

Ég syng tvö lög ein, í öðru þeirra þarf ég að dansa aðeins því þar er ég að gera grín af Sandí, en í hinu þarf ég bara að syngja. Svo syng ég nokkur lög með fleiri krökkum auk þess sem ég dansa í lang flestum lögum.

Ljósmyndir frá æfingum eru frá Ágústi Ólasyni skólastjóra Varmahlíðarskóla.

.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir