Ferðinni í Húsgilsdrag gerð skil í Feyki vikunnar
Í Feyki vikunnar er í ýmis horn að líta, eins og ávallt. Fastir liðir eins og venjulega, afþreying í boði hússins í bland við skemmtilega umfjallanir og viðtöl. Ferðasaga um leiðangur fámenns hóps í Húsgilsdrag þar sem minningarplatti um Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar, síðasta kaþólska biskups fyrir siðaskipti, var festur á stein.
Gamla hlaðan lifnar við, er fyrirsögn á viðtali við Magnús Frey Gíslason en hann ásamt fleirum ætla að blása lífi í gömlu hlöðuna sem stendur við mynni Sauðárgils og Litlakógar. Stefnt er á opnun kaffihúss þar á næsta ári.
Svala Runólfsdóttir, héraðsskjalavörður í Austur-Húnavatnssýslu, skrifar aðsenda grein um mikilvægi skjalavörslu en stefnt er á að halda námskeið í samvinnu skjalasafna á Norðurlandi vestra og Þjóðskjalasafni Íslands.
Hinn geysivinsæli þáttur um torskilin bæjarnöfn er þar einnig að finna og eru Skeggjastaðir í Miðfirði teknir til skoðunar. Leiddar eru líkur að því að upprunalega nafnið á jörðinni hafi verið Skeggvaldastaðir.
Fyrir skömmu fóru nokkrir galvaskir áhugamenn um sögu Helgu Sigurðardóttur, fylgikonu Jóns Arasonar, síðasta kaþólska biskups Íslands fyrir siðaskipti, með minningarplatta í Húsgil sem staðsett er á bak við Glóðafeyki í Blönduhlíð. Þar hafðist hún við sumarið 1551 í tjaldi í felum fyrir dönskum konungsmönnum sem árið áður höfðu líflátið Jón og tvo syni þeirra. Sagt er frá ferðinni í gamansömum tón og Sigurður Hansen tekinn tali.
Vicki O´Shea segir frá starfsemi listamiðstöðvarinnar Nes á Skagaströnd en þar heftur verið tekið á móti tæplega 1000 listamönnum á tólf árum.
Söngkonan unga og áður efnilega, nú frábæra, svarar spurningum í Tón-lystinni en eitt af topp 10 bestu mómentum lífs hennar var að hitta Ariönu Grande.
Sagt er frá skemmtilegu verkefni sem nokkrar stúlkur á Sauðárkróki unnu að í sumar, Stelpur – on the run, en þær hittust reglulega og hlupu góðgerðahlaup til styrktar Barnaspítala Hringsins.
Þéttur íþróttapakki er á sínum stað ásamt matgæðingunum Sunnu Gylfa og Davíð Þór og sem bjóða upp á andavefjur, Tagliatelle og franska súkkulaðiköku. Vísnaþáttur númer 767 er einnig að finna og geymir margar góðar vísur eins og þessa eftir Reyni Hjartarson:
Gott er að hafa gangnamenn slíka
sem grenjandi hríðin ei heftir.
Hundarnir týndust og hestarnir líka
og helmingur fjárins varð eftir.
Þá má ekki gleyma að telja upp aflafréttir, afþreyinguna, fréttir og spurningu vikunnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.