Kristvina ráðin í starf aðstoðarskólastjóra í Varmahlíð

Kristvina Gísladóttir frá Álftagerði. MYND AF SKAGAFJÖRÐUR.IS
Kristvina Gísladóttir frá Álftagerði. MYND AF SKAGAFJÖRÐUR.IS

Í byrjun árs var auglýst laus staða aðstoðarskólastjóra við Varmahlíðarskóla í Skagafirði. Nú fyrir helgi var tilkynnt um að Kristvina Gísladóttir hafi verið ráðin í starfið og mun hún taka við starfinu í febrúar. Alls bárust fimm umsóknir um starfið. Kristvina hefur starfað í Varmahlíðarskóla undanfarin 20 ár.

Ekki skortir Kristvinu reynsluna af starfi aðstoðarskólastjóra í Varmahlíð því hún sinnti starfinu áður árin 2008–2017. „Þess utan hefur hún starfað í Varmahlíðarskóla sem umsjónarkennari og námsráðgjafi á tímabili. Kristvina þekkir því stefnu og áherslur Varmahlíðarskóla afar vel ásamt því sem felst í starfi aðstoðarskólastjóra. Kristvina er fagmenntaður grunnskólakennari og að auki lauk hún diplómanámi í jákvæðri sálfræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands í fyrra,“ segir í frétt á heimasíðu Skagafjarðar en um leið og Kristvina er boðin velkomin til starfa er Láru Gunndísi Magnúsdóttur, fyrrum aðstoðarskólastjóra, þakkað fyrir hennar góða starf undanfarin ár,

Þá má geta þess að nýr skólastjóri var ráðinn í Varmahlíðarskóla síðastliðið sumar en þá tók Trostan Agnarsson við stjórnartaumunum úr höndum Hönnu Dóru Björnsdóttur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir