Efling sjálfbærni og seiglu samfélaga á Norðurslóðum
Á heimasíðu Háskólans á Hólum er sagt frá því að þann 1. ágúst síðastliðinn var ýtt úr vör fjögurra ára þverfaglegu rannsóknarverkefni sem beinir sjónum að þeim hröðu breytingum sem orðið hafa á Norðurslóðum vegna aukinnar alþjóðavæðingar og áskorunum sem þeim fylgja. Verkefnið nefnist ArticHubs og er styrkt af Horizon 2020 áætlun Evrópusambandsins. Meginmarkmið verkefnisins er að þróa rannsóknamiðaðar og hagnýtar lausnir til að mæta þeim áskorunum sem Norðurslóðir standa nú frammi fyrir.
Samspil alheimsvæðingar og loftslagsbreytinga knýja fram breytingar af stærðargráðu sem ekki áður hefur þekkst. Aukin áhersla á atvinnugreinar eins og námuvinnslu og ferðaþjónustu, auk iðnvæðingar margra hefðbundinna atvinnugreina, s.s. sjávarútvegs og skógræktar, valda æ oftar hagsmunaárekstrum um nýtingu auðlinda sem hafa afgerandi áhrif á velferð bæði íbúa og samfélaga Norðurslóða.
Verkefnalýsing
ArticHubs leiðir saman 22 samstarfsaðila frá 11 ólíkum löndum á Norðurslóðum, allt frá Kanada til Rússlands. Samstarfsaðilarnir koma frá háskólum, rannsóknastofnunum, félagasamtökum, opinberum og einkaaðilum auk íbúa rannsóknarsamfélaganna. Tveir samstarfsaðilar koma frá Íslandi, þ.e. Háskóli Íslands, sem tekur þátt í rannsóknum á ferðamennsku, og Háskólinn á Hólum sem tekur þátt í rannsóknum á fiskeldi, og leiðir þann hluta rannsóknarinnar.
Megináhersla verkefnisins er á sjálfbærni og seiglu jaðarsvæða á Norðurslóðum. Nýnæmi verkefnisins felst í að þróa aðferðir sem leggja áherslu á heildarsýn og heildarhagsmuni í auðlindanýtingu svæða með langtíma velferð samfélaga að leiðarljósi.
Verkefnið mun leitast við að bera kennsl á og greina helstu drifkrafta sem hafa áhrif á umhverfi, lífsviðurværi, menningu og samfélög Norðurslóða í dag. Sérstök áhersla verður lögð á landnýtingu Norðurslóða og hvernig unnt er að minnka deilur og hagsmunaárekstra sem fylgja mismunandi nýtingu náttúru- og menningarlegra auðlinda. Ólíkir hagsmunir verða kortlagðir til að efla skilning á orsakatengslum á milli hagsmunaaðila og þeir fengnir til samstarfs til að þróa aðferðir og tæki til að einfalda þátttöku þeirra í gerð landnýtingaráætlana og skipulagi auðlindanýtingar.
Afrakstur verkefnisins felst meðal annars í gerð aðgengilegs landupplýsingakerfis þar sem almenningur mun á einfaldan hátt getað miðlað skoðunum sínum um landnýtingu. Enn fremur verða leiðbeiningar um „félagsleg leyfi til atvinnuuppbyggingar“ (e. Social licence to operate) og framtíðarsviðsmyndir fyrir Norðurslóðir þróaðar, prófaðar og innleiddar í samvinnu við hagsmunaaðila á öllum 22 rannsóknarsvæðunum. Fyrir utan rannsóknarsvæðin í Norður Evrópu taka þátttakendur frá Kanada, Austurríki og Ítalíu einnig þátt í ArticHubs verkefninu og eru þau svæði hugsuð sem samanburðarsvæði.
Þátttakendur í verkefninu koma frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Íslandi (Háskólinn á Hólum og Háskóli Íslands), Rússlandi, Bretlandi, Austurríki, Ítalíu, Grænlandi, Færeyjum og Kanada.
Heimild og sjá nánar á Hólar.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.