Drangey-smábátafélag sendir stjórnvöldum tóninn

Á félagsfundi Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar, sem haldinn var sl. sunnudag, voru samþykktar ályktanir er lúta að breyttum reglum strandveiða. Þá mótmælir félagið þeirri hugmynd að botndregnum veiðarfærum og handfæraveiðar verði settar undir sama hatt. Jafnframt lýsir félagið furðu sinni á þeirri fyrirætlan stjórnvalda að auka veiðar með botntrolli nálægt landi, jafnvel upp að þriggja mílna landhelgi í nafni umhverfisverndar og minni kolefnislosunar.

Ályktanir félagsfundar Drangeyjar 22. janúar 2023

Ályktun um strandveiðar 2023
Drangey-smábátafélag Skagafjarðar mótmælir þeirri fyrirætlan matvælaráðherra að hverfa frá þeirri meginstefnu um strandveiðar að þær séu heimilar allt að 12 veiðidaga á mánuði fjóra mánuði á ári. Með því er stefnt að því að innleiða aftur „ólympískar“ veiðar á hverju veiðisvæði sem er bæði óhagkvæmt og hættulegt. Skorar félagið á stjórnvöld að tryggja að 12 daga veiðireglan verði í gildi allt strandveiðitímabilið 2023 enda hefur Hafrannsóknastofnun lýst því yfir að 2000-3000 tonna frávik á strandveiðivertíð hafi takmörkuð áhrif á þorskstofninn, auk þess sem breytileiki í aflareglu (20-22%) rúmar væntanlegan heildarafla á strandveiðum hvers árs.

Ályktun um friðun hafsvæða
Drangey-smábátafélag Skagafjarðar styður þá fyrirætlan stjórnvalda að auka friðun hafsvæða umhverfis landið. Hins vegar mótmælir félagið harðlega þeirri hugmynd að setja veiðar með botndregnum veiðarfærum og handfæraveiðar undir sama hatt þegar kemur að verndun á lífríki sjávarbotnsins, enda stríðir það gegn alþjóðlegum sjónarmiðum og raunar gegn heilbrigðri skynsemi. Þá bendir félagið á að rík ástæða er til að auka friðun lífríkis á grunnslóð, t.d. með því að takmarka veiðar með botndregnum veiðarfærum inn á fjörðum og flóum.

Ályktun um auknar veiðar með botntrolli á grunnslóð
Drangey-smábátafélag Skagafjarðar lýsir furðu sinni á þeirri fyrirætlan stjórnvalda að auka veiðar með botntrolli nálægt landi, jafnvel upp að 3 mílna landhelgi í nafni umhverfisverndar og minni kolefnislosunar við fiskveiðar, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (aflvísir). Fremur ætti að stefna að því að veiðar með slíkum veiðarfærum færu að mestu leyti fram utan 12 mílna landhelgismarka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir