Brottflogin grágæs frá Blönduósi dúkkar upp í Ålbæk

Skjáskot af Morgunblaðinu 8. febrúar 2021.
Skjáskot af Morgunblaðinu 8. febrúar 2021.

Nú í vikunni var í fjölmiðlum sagt frá ferðum íslensku grágæsarinnar NAV sem merkt var á Blönduósi sumarið 2017. Haft er eftir Arnóri Sigfússyni, dýravistfræðingi hjá Verkís, að rétt fyrir áramót hafi hún verið stödd á Norður-Jótlandi og að þetta sé í fyrsta skipti sem íslensk grágæs sjáist í Danmörku, svo vitað sé. Í frétt Húnahornsins segir að Arnór séBlönduósingum kunnugur því hann hefur staðið fyrir merkingum íslenskra grágæsa þar og fylgst með ferðum þeirra.

NAV sást á hefðbundnum vetrarstöðvum íslenskra gæsa á Skotlandi veturinn eftir að hún var merkt og á heimaslóðum á Blönduósi sumrin 2018 og 2019. Arnór telur líklegast að hún hafi verið í Skotlandi síðustu tvo vetur þótt ekki hafi borist tilkynningar um það.

Arnór frétti svo af NAV á Mæri og í Raumsdal og í Þrændalögum í Noregi í maí og október í fyrra. Nú hefur hann fengið upplýsingar um að hún hafi sést í Ålbæk á Norður-Jótlandi í Danmörku 30. desember sl. Það eru óvenjulegar slóðir íslenskra gæsa. Telur Arnór ekki ólíklegt að NAV sé flutt til Noregs og hafi farið suður til Danmerkur með norskum gæsum.

Heimild: Húnahornið sem hefur eftir Morgunblaðinu

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir