Breiðhyltingar höfðu betur á Króknum
Karlalið Tindastóls spilaði annan leik sinn í 2. deildinni í knattspyrnu í dag þegar liðið mætti ÍR-ingum úr Breiðholti Reykvíkinga. Leikið var við ágætar aðstæður á gervigrasinu á Króknum, hitastigið kannski rétt ofan frostmarks en stillt. Ekki dugðu aðstæðurnar heimamönnum sem urðu að bíta í það súra epli að lúta í gervigras. Gestirnir sigruðu 0-2 og hirtu því stigin sem í boði voru.
Það var Ágúst Freyr Hallsson sem náði forystunni fyrir ÍR á 26. mínútu og fjórum mínútum síðar hljóp á snærið hjá Tindastólsmönnum þegar Helgi Freyr Þorsteinsson, markvörður ÍR, fékk að líta rauða spjaldið. Það kom þó ekki að miklu gagni því á annarri mínútu í uppbótartíma fyrri hálfleiks bætti André Musa Solórzano Abed við öðru marki gestanna. Stólarnir tveimur mörkum undir í hálfleik og ekki tókst liðunum að bæta við mörkum í síðari hálfleik.
Tvö töp því staðreynd að loknum fyrstu tveimur umferðunum og Stólarnir enn ekki búnir að skora mark. Næstkomandi laugardag renna strákarnir í Garðinn þar sem Víðismenn bíða eftir þeim.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.