Breiðhyltingar brölta í Síkið í kvöld
Körfuboltinn fer aftur af stað eftir jólafrí í kvöld, en þá mæta Breiðhyltingarnir í ÍR í Síkið og etja kappi við heimamenn í liði Tindastóls. Leikurinn hefst kl. 19:15 og vonandi verða Stólarnir straumlínulagaðir eftir fríið því nú er ekkert annað í spilunum en að hífa sig upp stigatöflu Dominos-deildarinnar.
Lið Tindastóls er nú sem stendur í sjöunda sæti deildarinnar með 12 stig eftir fyrri umferðina en liðin í 3.–6. sæti eru öll með 14 stig. Það eru hinsvegar lið Keflavíkur og KR sem eru á toppnum með 18 stig.
Fyrir tímabilið spáðu fyrirliðar og forráðamenn liðanna í Dominos hvernig deildarkeppnin færi. KR-ingum var spáð sigri og staða þeirra í deildinni er sterk. Hins vegar var Stólunum spáð öðru sæti og nokkuð ljóst að okkar menn þurfa að halda vel á spöðunum ef það á að nást. Spámennirnir reyndust ekki verulega spámannlega vaxnir þegar kom að Keflvíkingum því þeim var spáð áttunda sæti en sitja sem fyrr segir á toppnum.
Síðari umferðin hefst semsagt í kvöld og ein breyting hefur orðið á leikmannahópi Stólanna því körfuknattleiksdeild Tindastóls og Arnþór Freyr ákváðu að skilja að skiptum. Arnþór er hæfileikaríkur leikmaður en því miður náði hann ekki að sýna sínar bestu hliðar með Stólunum. Það er því vonandi að hungraðir heimamenn grípi tækifærið og stimpli sig af krafti inn í Dominos-deildina.
Hvað um það. Allir í Síkið – áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.