Borgnesingar beðnir afsökunar
Skagfirðingar fjölmenntu í Borgarnes sl. fimmtudag þegar Skallagrímsmenn tóku á móti Tindastóli í Dominos deildinni í körfubolta. Mikil stemning var á leiknum og stuðningsmannasveitin Grettir stóð fyrir sínu og sem fyrr, líkt og sjötti maður Stólanna. En það setti blett á annars góða stuðningsmenn að einhverjir supu áfengið meira en þeir sjálfir þoldu og voru gestunum ekki til fyrirmyndar. Formaður Grettis, en svo heitir sveitin, sendi frá sér afsökunarbeiðni í gær enda ekki sú ásýnd sem hún vill standa fyrir, sem sýnd var í Fjósinu í Borgarnesi.
„Ég vil biðjast afsökunar fyrir hönd stuðningsmanna Tindastóls fyrir athæfi nokkurra stuðningsmanna á leiknum í Borgarnesi í gær. Framkoma sem þeir sýndu er ekki sú sama og við viljum að endurspegli stuðningssveitina Grettismenn og viljum við viðhalda okkar ímynd sem er að hvetja, syngja, hafa gaman en einnig að koma vel fram og sýna virðingu. Það leynast þó stundum skemmd epli en það er ekkert annað en til að læra af og við pössum að svona athæfi komi ekki upp aftur.
Við biðjum Borgnesinga afsökunar fyrir skemmdum og öðru sem átti sé stað á leiknum, við berum virðingu fyrir Borgarnesi og þökkum þeim einnig fyrir frábæra stemmingu í Fjósinu í gær.
Kveðja, Bjarni Gíslason – Grettismaður“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.