Bóluefni gegn COVID-19 streymir um allt land
Sagt er frá því á vef Heilbrigðisstofnunar Norðurlands að fyrstu skammtar af Pfizer bóluefninu eru byrjaðir að berast á Norðurlandið en bóluefni verður afhent á starfsstöðvum HSN á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði, Dalvík, Akureyri og Húsavík í dag. Gert er ráð fyrir því að bólusetning með þessum fyrstu skömmtum ljúki í dag og á morgun.
Í fréttinni segir: „Forgangsröðun er í samræmi við reglugerð og tilmæli sóttvarnalæknis. Í þessari umferð munu íbúar á hjúkrunar- og dvalarheimilum á Norðurlandi verða bólusettir auk lækna og hjúkrunarfræðinga HSN sem sinna bráðaþjónustu, alls 520 manns. Hjúkrunarfræðingar og læknar í heilsugæslu á HSN hafa umsjón með bólusetningunum í samvinnu við hjúkrunarfræðinga á hjúkrunar- og sjúkradeildum. Haldið verður áfram með bólusetningar eftir áramót þegar næsti skammtur af bóluefni berst.“
Fram kemur að ekki er hægt að panta bólusetningu heldur verður fólk látið vita hvenær því stendur til boða að mæta og hvar. Fólk er því vinsamlegast beðið um að hringja ekki í heilsugæsluna vegna þessa.
Sveinfríður Sigurpálsdóttir var fyrsti íbúinn á Norðurlandi til að fá bólusetningu við kórónuveirunni. Hún hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Blönduósi frá árinu 1973. Sveinfríður tók bólusetningunni vel og kenndi sér einskis meins.
Sjá nánar: HSN.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.