Bjarni segir Vatnsnesveg stórhættulegan og vill flýta framkvæmdum
Fram kom í máli Bjarna að vegurinn væri stórhættulegur og úr sér genginn og að hann stæði engan veginn undir þeirri umferð sem um hann færi. „Vatnsnesvegur er enn áætlaður á þriðja tímabili samgönguáætlunar, nokkuð sem íbúar landshlutans geta ekki við unað og við sem hér störfum ættum ekki heldur að gera. Fyrir liggur að aftur verði boðinn út 2-3 km kafli við Hólabrú í Vesturhópi á nýju ári og svo 5 km kafli á vestanverðu Vatnsnesi og er það vel. Hér þarf hins vegar miklu meira til en smáskammtalækningar frá einu ári til þess næsta,“ sagði Bjarni jafnframt í fyrirspurn sinni og bætt við að fara þurfi í aðgerðir strax við uppbyggingu á veginum þannig að hann geti gegnt því mikilvæga hlutverki sem honum er ætlað.
Sigurður Ingi benti á að stjórnvöld hefðu verið með einn milljarð á samgönguáætlun í tengivegi en að Vatnsnesvegur kosti yfir þrjá milljarða. „Það sem búið er að gera er það sem háttvirtur þingmaður nefndi réttilega, útboð á brú yfir Vesturhópshólaá ásamt 2,2 km vegarkafla sem átti að leggjast á síðasta ári. Ekkert tilboð barst í verkið en það verður boðið út að nýju á þessu ári.
Innviðaráðherra benti á að í undirbúningi og hönnun væri rúmlega 5 km kafli frá Kárastöðum að Ánastöðum sem er sömuleiðis ráðgert að bjóða út á næsta ári. „Hér er því verið að tala um framkvæmdir fyrir 500–600 milljónir. Síðan er rétt að restin hefur verið tekin út fyrir sviga og sett sérstaklega á samgönguáætlun, er sem sagt ekki lengur í tengivegapottinum, og eru áætlaðir í það um 2,5 milljarðar. Það er á þriðja tímabili samgönguáætlunar sem er langt í en um er að ræða 69 km langan veg,“ sagðir Sigurður Ingi á Alþingi í dag og bætti við að þegar samgönguáætlun kæmi inn í þingið þá treysti hann á að Bjarni og aðrir þingmenn yrðu tilbúnir að veita meira fé í uppbyggingu tengivega um land allt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.