Bjarni Haraldsson - Minning

FÆDDUR 14. MARS 1930 - LÁTINN 17. JANÚAR 2022

Það er með djúpri virðingu og þakklæti sem ég að leiðarlokum kveð tengdaföður minn Bjarna Haraldsson, kaupmann á Sauðárkróki.

Bjarni hefur verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu frá því að ég kynntist honum Lárusi Inga. Örfáum árum áður höfðu Dísa tengdamamma, sem þá var orðin ekkja og Bjarni hafið búskap. Ástarsaga Dísu og Bjarna er um margt sérstök, þau kynnast ung, þekkjast í áratugi og sennilega hefur hann Bjarni beðið lengi eftir henni Dísu sinni. Afrakstur ástar þeirra er hann Lárus minn sem naut þess í raun að eiga tvo feður, dásamlega menn sem báðir reyndust honum vel. 

Eftir að hafa verið tengdadóttir Bjarna, tengdadóttir Skagafjarðar í áratugi, hef ég lært að skilja að í firðinum fagra gilda mögulega aðeins önnur lögmál heldur en hér á flatlendinu Sunnanlands. Lífinu með sínum flókna margbreytileika er tekið fagnandi, lífsgleði og kærleikur hafður í hávegum, flókin fjölskyldumynstur þykja ekki í frásögur færandi, fyrir það er ástæða til að vera þakklát.

Verslun Haraldar Júlíussonar hefur verið í rekstri í hartnær 103 ár. Búðin var æskuheimili Bjarna en hann hefur aldrei búið annars staðar en á Aðalgötunni. Þar bjuggu hann og Dísa sér sameiginlegt, notalegt heimili. Óneitanlega tvinnaðist rekstur verslunarinnar þétt saman við einkalífið. Á skrifstofunni inn af búðinni hittust góðvinir Bjarna daglega, skröfuðu þar um daginn og veginn og þáðu kaffi af Dísu sem sjaldnast þó settist hjá þeim frammi. Oft var þar glatt á hjalla enda miklir snillingar sem þar hittust.

Í húsinu hefur tíminn staðið kyrr og þar finnur maður glöggt fyrir fortíðinni, dýrmætri sögu og minningum. Það var alltaf gaman að koma á Aðalgötuna. Hversu frábært er það líka að afi og amma búi svo að segja í verslun og að lítil afabörn geti hvenær sem er lætt hendi í lófa afa og rölt fram í búð og náð sér í gos og nammi. Þetta fannst afabörnunum skemmtilegast af öllu. Öll hafa börnin okkar notið þess að fá að heimsækja og dvelja hjá afa og ömmu um lengri eða skemmri tíma og munu þau án vafa búa að því til framtíðar. Þau hafa þannig, rétt eins og við öll, fengið að skyggnast inn í fortíðina og upplifa á eigin skinni tíðaranda sem nú, með brotthvarfi Bjarna, er horfinn.

Eftir því sem árin hafa liðið hef ég betur skilið þá sérstöðu sem Bjarni og verslunin nýtur. Allir þekkja búðina og kaupmanninn við Aðalgötuna. Um hann hafa verið samdar vísur, heimildamynd gerð, greinar skrifaðar og viðtöl tekin enda var Bjarni bæði uppátækjasamur og skemmtilegur. En í okkar augum var hann bara Bjarni afi. Síðar hefur okkur skilist að hann var meira en það. Hann var máttarstólpi og tákngervingur tíma sem er horfinn, þess vegna var hann þekktur. Þess vegna sóttist fólk eftir því að heimsækja hann í búðina. Það er mannlegt að sakna þess sem var og sækja í að upplifa aftur þá tíma sem við munum úr bernsku. Það gátum við öll upplifað í versluninni hans Bjarna afa á Króknum.

Bjarni og Dísa komu oft hingað til okkar í Hveragerði. Yfirleitt hafði Bjarni ekki setið lengi þegar hann hafði boðið karlpeningnum út að rúnta og ekki brást hvert var farið. Bílasölurnar á Selfossi voru eins og segulstál á Bjarna en eins og allir vita var hann afar áhugasamur um bíla og fram á síðasta dag ræddi hann um bílakaup.

Nú er Bjarni afi farinn í Sumarlandið. Ég efast ekki um að þar hefur beðið hans glæsivagn, ábyggilega Chevrolet Malibu. Nú keyrir hann þar um greiða vegi, aðeins of hratt, með sixpensarann og glettnissvip í auga. Hann bíður þar enn og aftur eftir henni Dísu sinni sem nú lifir eiginmann sinn. Við sem eftir sitjum syrgjum góðan mann en minningin mun lifa með þeim sem hann elskaði mest eiginkonu, börnum, barnabörnum og langafastrákunum sex.

Aldís Hafsteinsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir