Allt getur nú skeð - Gamansögur af tónlistarmönnum

Í bókinni „Hann hefur engu gleymt ... nema textunum“ er að finna bráðsnjallar gamansögur af íslenskum tónlistarmönnum.  Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson og hefur hann kallað marga fram á sviðið, „lifandi og látna!“, svo sem Bjögga Halldórs, Ragga Bjarna, Magga Kjartans, Greifana, Skriðjöklana, Ingimar Eydal og hljómsveitarmeðlimi hans, Álftagerðisbræður og eru þá sárafáir nefndir.  Í Jólafeyki gat að líta nokkrar sögur úr bókinni og bætum við nokkrum við hér á Feyki.is.

Þegar Álftagerðisbræður tróðu upp í troðfullu Ráðhúsi Reykjavíkur á Menningarnótt sagði Pétur: „Gaman að sjá hvað margir eru komnir, úr ekki stærra plássi!“ 

*

Eitt sinn var Sigfús Álftagerðisbróðir, ásamt nokkrum félögum sínum úr jarðarfararkór Heimis, að fara að syngja við útför konu, sem látist hafði í hárri elli og fæstir þeirra höfðu þekkt neitt til.  Á kirkjutröppunum stóð ekkillinn til að taka á móti kórnum og byrjaði hann á því að heilsa Sigfúsi, sem fór þar fremstur.  Sorgin sveif að sjálfsögðu yfir vötnum, en söngmaðurinn virtist hafa gleymt stund og stað, enda annríki mikið í söngnum um þessar mundir, því er hann tók í hönd ekkilsins sagði hann:

„Til hamingju með daginn!“

*

Óskar, sá yngsti hinna söngglöðu bræðra úr Álftagerði, syngur mikið við jarðarfarir enda kallaður „Hell singer“.  Aðspurður hvort að mikið væri fram undan hjá honum í þeim efnum svaraði hann:

„Já, það er reytingur.  Ég var uppi á elliheimili um daginn að kanna lagerstöðuna og hún lofar góðu.“

*

Vinsæl danshljómsveit spilaði á Sæluviku Skagfirðinga á Sauðárkróki á sjöunda áratugnum. Liðsmenn hennar mættu á svæðið vel við skál og höfðu með sér vænar birgðir. Er leið á dansleikinn lognuðust þeir út af á sviðinu, einn af öðrum. Áður en yfir lauk var einungis orgelleikarinn með rænu. Hann var reyndar í rokna stuði og kláraði dansleikinn einn síns liðs með stæl.

Síðar upplýstist að hann væri lítið fyrir áfengi en þeim mun stórtækari í notkun örvandi efna.

*

Pétur heitinn Sigurðsson á Hjaltastöðum í Akrahreppi var um árabil söngmaður í Karlakórnum Heimi í Skagafirði og ferðaðist með honum vítt og breitt, bæði innanlands og utan.

Eitt sinn kom Pétur allur skrámaður í andliti á kóræfingu.  Félagar hans tóku eftir þessu og spurði hvað hefði gerst.  Hann svaraði um hæl:

„Ég var að raka mig og trúlega hef ég staðið of nærri vélinni.“

*

Hinn kunni hljómborðsleikari Hjörtur Howser stjórnaði á sínum tíma útvarpsþætti á Bylgjunni og þurfti þá að ná sambandi við Bubba Morthens.  Hann fann hins vegar hvergi símanúmer Bubba og kom því að máli við Björgvin Halldórsson, sem var þarna nærstaddur, og spurði:

„Veist þú nokkuð símanúmerið hjá Bubba? Hann er nefnilega ekki skráður í símaskrána?“

„Símaskrána!“ svaraði Björgvin, steinhissa á vankunnáttu Hjartar. „Stjörnurnar eru ekki skráðar í símaskrána.  Bara undirleikararnir.“

*

Herbert Guðmundsson hljóðritaði stórsmellinn „Can´t Walk Away“ í Englandi. Fékk að nota þar ódýra næturtíma. Um takkana hélt Íslendingur. Í sama hljóðveri tóku The Rolling Stones upp plötu á sama tíma en bara á daginn.

Upptökustjóri Hebba laumaðist til að spila fyrir hann einhverjar upptökur Stónsara. Þar heyrði Hebbi trommuleik sem smellpassaði við lagið.

Íslendingarnir bundust nú fóstbræðralagi um að stelast til að nota trommuleikinn  í laginu og halda því vitaskuld leyndu. Sem varð niðurstaðan. Trommuleikurinn í „Can´t Walk Away“ er spilaður af stónsaranum Charlie Watts - án þess að hann hafi hugmynd um það!

*

Viðar Einarsson – Viðar Togga – í Vestmannaeyjum er mikill aðdáandi The Beatles.  Eitt sinn spurði hann Árna Johnsen að því hvert væri besta lag allra tíma.  Bætti svo við:

„Þetta áttu að vita, Árni, þú ert tónlistarmaður. Árni, er það ekki, ertu ekki tónlistarmaður, Árni? Það byrjar á Joð, Árni. Joð, veistu ekki hvaða lag þetta er?“

En Árni stóð gjörsamlega á gati.  Kom engu lagi fyrir sig sem byrjar á Joð og varð því að játa sig sigraðan.  Þá heyrðist í Viðari Togga, stórhneyksluðum á vini sínum:

„Árni, ég trúi þessu ekki.  Þetta er auðvitað Yesterday, Árni.“

*

Samhliða söngnum hafði Raggi Bjarna stundum annan starfa með höndum og ók til dæmis eitt sinn leigubíl. Kom þá fyrir í einhver skipti að hann æki fólki á ball, þar sem hann sjálfur tróð svo upp, og síðan heim að því loknu. 

Eitt sinn ók hann ungri stúlku í stuttu pilsi heim eftir ball á Hótel Sögu og þegar staðnæmst var fyrir utan heimili hennar kom það í ljós að hún átti ekki fyrir farinu.

„Hvað ætlarðu að gera í því?“ spurði Raggi og leit aftur í til hennar.

Þá lyfti hún upp pilsinu svo að sá í það allra heilagasta og spurði:

„Má ég borga með þessu?“

Raggi lét þetta ekki koma sér úr jafnvægi og svaraði um hæl:

„Áttu ekki eitthvað smærra, góða?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir