Ævintýrabókin á fjalirnar í Bifröst

Leikhópurinn ásamt leikstjóra. Mynd:PF
Leikhópurinn ásamt leikstjóra. Mynd:PF

Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir í dag leikritið Ævintýrabókina eftir Pétur Eggerz með tónlist eftir Guðna Franzson. Leikstjóri verksins er Ingrid Jónsdóttir og alls eru 28 hlutverk í sýningunni sem leikin eru af 25 leikurum.

Leikstjórinn, Ingrid Jónsdóttir, á að baki langan og farsælan feril sem leikstjóri en hún hefur sett upp í kringum 30 sýningar, vítt og breitt um landið. Þetta er þriðja verkið sem Ingrid setur upp hjá Leikfélagi Sauðárkróks en áður hefur hún sett upp Sæluvikustykkin Tvo tvöfalda vorið 2012 og Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan á síðasta vori.

Ingrid segir að Ævintýrabókin sé skemmtilegt verk sem allir aldurshópar ættu að geta skemmt sér yfir, „það eru alveg fullorðinsbrandarar í þessu líka og ærsl og léttleiki, góð lög og góðir söngvarar en Skagfirðingar eru náttúrulega þekktir fyrir að vera góðir söngvarar,“ segir Ingrid.

„Leikritið fjallar um stelpuna Dóru sem er að fara að sofa og flettir Ævintýrabókinni sinni til að velja sér ævintýri til að lesa fyrir svefninn. Fyrir valinu verður ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn en það finnst Dóru skemmtilegasta ævintýrið. Þegar hún byrjar að lesa birtast persónurnar úr sögunni og úlfurinn ákveður að stinga af úr Rauðhettu og fara í einhver önnur ævintýri af því að honum er farið að leiðast svo þarna. Dóra og veiðimaðurinn fara svo að leita að honum og þau koma við í hinum ýmsu ævintýrum eins og Stígvélaða kettinum, Öskubusku, Mjallhvíti og fleiri. Allt fer svo vel að lokum“ segir Ingrid.

Formaður leikfélagsins er Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir. Hún segir hafa gengið vel að manna þessi mörgu hlutverk sem hafi gert æfingatímabilið mjög auðvelt. Í verkinu eru þrjú burðarhlutverk sem leikin eru af þeim Birgittu Pétursdóttur sem leikur Dóru, Guðbrandi Guðbrandssyni sem leikur veiðimanninn og Hauki Skúlasyni sem fer með hlutverk úlfsins. „Það eru margir nýir að koma inn sem við gleðjumst alltaf mjög mikið yfir. Við erum með hóp af dvergum, dvergana sjö, sem eru að mestu krakkar úr grunnskóla en annars er þetta mjög breiður hópur, eiginlega allur aldur, vanir og óvanir, og hefur gengið mjög vel að koma þessu öllu fyrir í ekki stærra rými en Bifröst er.“

Ævintýrabókin verður frumsýnd í dag, 7. október, klukkan 16:00. Sýningar verða átta talsins og dreifast á næstu tíu daga. Sigurlaug segist að lokum vilja hvetja fólk til að drífa sig strax í leikhús og missa ekki af þessari skemmtilegu sýningu.  

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir