Aðeins eitt stig þrátt fyrir rútuferð

Það var sannkallaður stórleikur á Sauðárkróksvelli nú á þriðjudaginn þegar grannarnir í Fjallabyggð sóttu lið Tindastóls heim í 2. deild karla. Langt er síðan jafn margir áhorfendur hafa sótt leik á Króknum enda alltaf heilbrigður og skemmtilegur rígur á milli liðanna og ágæt stemning í nánast fullri stúku.

Liðin fóru vel af stað og Fannar Örn Kolbeinsson kom heimamönnum yfir strax á 6. mínútu en Alexander Már Þorláksson jafnaði fyrir gestina úr Fjallabyggð í næstu sókn.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu en gæðin voru ekki á háu stigi. Talsverður norðanstrekkingur gerði leik-mönnum erfitt fyrir en augljóst var að hvorugt liðið ætlaði að taka mikla áhættu í leiknum. Leikmenn Tindastóls áttu nokkur hættuleg skot undan vindi í fyrri hálfleik og leikmenn KF voru skeinuhættari í síðari hálfleik en hvorugt liðið hafði erindi sem erfiði eftir líflegar upphafsmínútur. Lokatölur því 1-1 sem komu liðunum að litlu gagni en eitt stig er betra en ekki neitt eins og skáldið sagði.

Í frétt á Fótbolti.net er sagt frá því að leikmenn Tindastóls hafi farið í rútuferð fyrir leik, fram í Varmahlíð og til baka. Ástæðan er hjátrú en sökum þess að einu tveir sigurleikir Stólanna í deildinni höfðu hingað til komið eftir langar rútuferðir til Hafnar í Hornafirði og á Egilsstaði, þá þótti rétt að láta á það reyna að rútuferðirnar gerðu gæfumuninn. Ekki dugði rútan nema fyrir einu stigi að þessu sinni – kannski ekki nógu langt í Vörmuhlíð? „Rútan er líka frekar kósy, það er þéttsetið og menn verða bara nánari við svona rútuferðir," er haft eftir Óskari Smára Haraldssyni, léttum að vanda, á Fótbolti.net.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir