65 nemendur brautskráðust frá FNV í dag við hátíðlega athöfn

Sagt er frá því á vef Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra að skólanum var slitið í dag við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í 33. sinn að viðstöddu fjölmenni.  Alls brautskráðust 65 nemendur. Skólameistari, Ingileif Oddsdóttir, setti athöfnina og fjallaði m.a. um stöðu skólans og viðleitni hans til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna menntun.

Ásbjörn Karlsson, áfangastjóri, flutti vetrarannál þar sem stiklað var á stóru í viðfangsefnum skólans á síðasta skólaári. Þar kom m.a. fram að nemendur á haustönn voru 405, en 532 á vorönn. Alls hefur 601 nemandi sótt nám til skólans á þessu skólaári.

Pálmli Geir Jónsson flutti ávarp nýstúdenta. Garðar Víðir Gunnarsson flutti  ávarp 10 ára stúdenta, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir flutti ávarp 20 ára stúdenta, Kristín Aðalheiður Símonardóttir flutti ávarp 25 ára stúdenta og Knútur Aadnegaard flutti ávarp 30 ára brautskráningarnema.

Margrét Petra Ragnarsdóttir flutti tvö lög við undirleik Jakobs Loga Gunnarssonar og þá flutti Sveinn Rúnar Gunnarsson sömuleiðis tvö lög.

Anna Rún Þorsteinsdóttir hlaut flestar viðurkenningar fyrir námsárangur en á heimasíðu FNV má sjá allar upplýsingar um viðurkenningar nemenda og ýtarlegri frásögn frá útskriftardeginu. Hér að neðan má aftur á móti sjá nokkrar myndir frá deginum en útskriftarnemar mættu í myndatöku upp úr kl. 11 í morgun en athöfnin sjálf hófst kl. 13.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir