18 mörk í tveimur leikjum á Sauðárkróksvelli í gær
Það var markaveisla á Króknum í gær en þá voru leiknir tveir leikir á Sauðárkróksvelli, stúlkurnar í meistaraflokki kvenna lutu í gras gegn toppliði Fram þar sem lokatölur urðu 1-7, og síðan var mikilvægur leikur í 3. deildinni þar sem Drangey þurfti nauðsynlega á sigri að halda en niðurstaðan í leik þeirra gegn ÍH var 5-5.
Það var vitað fyrirfram að leikur stúlknanna gegn Fram yrði talsverð brekka enda lið Fram langbest í B-riðli 1. deildar en þær höfðu fyrir leikinn unnið níu leiki og aðeins tapað einum. Þær náðu forystunni eftir 12 mínútur og í hálfleik var staðan 0-3. Gestirnir bættu við fjórum mörkum í síðari hálfleik áður en Laufey Rún Harðardóttir lagaði stöðuna fyrir Tindastól á 82. mínútu.
Tindastóll á þrjá leiki eftir, gegn Grindavík og Völsungi á útivelli en síðasti leikur sumarsins er hér heima gegn HK/Víkingi þann 26. ágúst.
Liðsmenn Drangeyjar vissu sem var að það dugði ekkert annað en sigur ef þeir ætluðu að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppni 3. deildar. Þeir fengu hins vegar mark í andlitið strax á fyrstu mínútu gegn Hafnfirðingunum í ÍH en Guðni Þór Einarsson var snöggur að kvitta fyrir heimamenn. Hilmar Þór Karlsson kom Drangey yfir á 15. mínútu. Hilmar Þór Ástþórsson, sem gerði 4 mörk í leiknum í gær, jafnaði metin úr vítaspyrnu á 28. mínútu og staðan 2-2 í hálfleik.
Konráð Freyr Sigurðsson og Óskar Smári Haraldsson gerðu sitt hvort markið í upphafi síðari hálfleiks og staða Drangeyjar vænleg. En á 13 mínútna kafla gerðu gestirnir þrjú mörk og komust í 4-5. Fyrst klíndi Eiríkur Kúld boltanum upp í bláhornið beint úr aukaspyrnu en síðan jafnaði ÍH eftir agaleg varnarmistök. Hilmar Ástþórsson gerði síðan fjórða mark sitt, og fimmta mark ÍH, þegar hann fékk laglega sendingu inn fyrir vörn Drangeyjar og negldi boltanum á nærstöngina hjá Óla Grétari Óskarssyni í marki Drangeyjar. Heimamenn voru þó ekkert að gefast upp, leikurinn varð ansi harður og leikmenn og áhorfendur orðnir talsvert æstir. Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma komst Gunnar Stefán Pétursson inn fyrir vörn ÍH og lyfti boltanum laglega yfir markmanninn og í markið og staðan jöfn, 5-5. Bæði lið reyndu að stela sigrinum en það var helst dómarinn sem stal athyglinni, sýndi Gunnari Stefáni rauða spjaldið stuttu áður en hann flautaði leikinn af.
Drangey er í fjórða sæti b-riðils með 16 stig eftir 11 leiki. ÍH er í fjórða sætinu með 20 stig og aðeins 3 umferðir eftir. Hér að neðan eru nokkrar myndir úr leiknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.