A-Húnavatnssýsla

Prjónasamkeppni Prjónagleðinnar 2020

Prjónagleði hefur verið haldin aðra helgi í júní undanfarin ár á Blönduósi af Textílmiðstöð Íslands en annar laugardagur í júní ár hvert er alþjóðlegi prjónadagurinn. Í ár verður hins vegar breyting á vegna COVID-19 og var ekki annað í stöðunni en að fresta hátíðinni og verður hún haldin 11. – 13. júní að ári.
Meira

Ámundakinn hagnaðist um 11,7 milljónir á milli ára

Aðalfundur Ámundakinnar ehf. var haldinn föstudaginn 5. júní síðastliðinn. Á dagskrá fundarins voru venjuleg aðalfundarstörf, þar á meðal samþykkt ársreiknings en árið 2019 var 16. starfsár félagsins. Samkvæmt ársreikningi nam hagnaður félagsins 11,7 milljónum króna samanborið við 636 þúsund krónur árið 2018. Betri afkoma skýrist helst af fleiri leigjendum, sameiningu og batnandi afkomu hlutdeildarfélaga. Leigutekjur námu rúmum 112 milljónum og jukust um 44% milli ára
Meira

Gönguhópur Blönduóss gengur með Snjódrífunum

Gönguhópur Blönduóss ætlar að ganga með Snjódrífunum sem arka nú yfir Vatnajökul en þær hvetja landsmenn til að ganga með þeim í sinni heimabyggð þá daga sem þær eru að ganga á jöklinum. „Við látum okkur ekki vanta í þetta verðuga verkefni,“ segir í tilkynningu frá gönguhópnum.
Meira

Halló frumkvöðlar og aðrir hugmyndasmiðir á Norðurlandi vestra

Icelandic Startups verður með kynningarviðburð á viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita fyrir Norðvesturlandi á Sauðárkróki nk. föstudag kl 12 – 14. Hraðallinn býður upp á metnaðarfullan vettvang til vöruþróunar fyrir verkefni sem snúa að hátækni í matvælaiðnaði, nýjum lausnum í landbúnaði og haftengdum iðnaði og betri nýtingu hráefna þar sem sjálfbærni og nýsköpun eru höfð að leiðarljósi. Hraðallinn er tilvalinn vettvangur fyrir þá frumkvöðla sem vilja ná lengra á styttri tíma og efla tengslanetið til muna.
Meira

Nes listamiðstöð og Selasetur Íslands fá styrk úr Loftslagssjóði

Nýlega var úthlutað úr Loftslagssjóði og er það í fyrsta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Sjóðurinn heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra og er hlutverk hans að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
Meira

Stólarnir sterkari í grannaslagnum

Lið Tindastóls og Kormáks/Hvatar mættust á Sauðárkróki í dag og var spilað við ágætar aðstæður. Rennislétt gervigras, 13 stiga hiti og pínu vindur. Þetta var fyrsti leikur beggja liða frá því í vetur en gæði leiksins voru engu að síður með ágætum og líkt og reikna mátti með í grannaslagnum þá var hvergi gefið eftir. Gestirnir vestan Vatnsskarðs voru 0-1 yfir í hálfleik en Stólarnir svöruðu með tveimur mörkum í síðari hálfleik og slógu því gestina út úr Mjólkurbikarnum. Lokatölur 2-1 fyrir Tindastól.
Meira

Sjómennskan mótaði mig fyrir lífstíð

Óhætt er að segja að reynsla mín af sjómennsku hafi mótað mig fyrir lífstíð. Ég fór fyrst á sjóinn fyrir rúmum 30 árum síðan, þá 16 ára gamall. Í dag er ég gríðarlega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast sjómennskunni ungur, enda kem ég af mikilli sjómannaætt úr Sandgerði. Faðir minn slasaðist alvarlega á sjó og gat því miður ekki stundað sjómennsku aftur. Afleiðingar sjóslyssins hafa ennþá mikil áhrif á líf hans. Sú reynsla hefur fylgt mér alla tíð og skýrir kannski af hverju öryggismál sjómanna hafa alltaf verið mér hugleikin.
Meira

Ásmundur Einar skoðaði nýjar almennar leiguíbúðir

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, heimsótti Norðurland vestra í lok maí og skoðaði meðal annars við það tækifæri framkvæmdir við nýjar almennar leiguíbúðir á Blönduósi og á Sauðárkróki.
Meira

Grannaslagur í Mjólkurbikarnum á morgun

Fyrsti alvöru fótboltaleikur sumarsins verður á morgun, sunnudag, þegar lið Tindastóls tekur á móti grönnum sínum í Kormáki/Hvöt. Leikurinn hefst kl. 14:00 á gervigrasinu á Sauðárkróki og er liður í 1. umferð Mjólkurbikarsins. Reikna má með hörkuleik þó hvorugt liðið hafi spilað fótboltaleik síðan snemma árs og spurning hvort leikmenn verði eins og beljur að vori – eða þannig.
Meira

Viggó Jónsson nýr formaður Markaðsstofu Norðurlands

Ný stjórn Markaðsstofu Norðurlands var kosin á aðalfundi, sem haldinn var þann 26. maí síðastliðinn og segir á heimasíðu hennar að aðalfundurinn hafi verið óvenjulegur, eins og svo margir fundir þetta misserið, en í fyrsta sinn var hann haldinn sem fjarfundur.
Meira