Vonskuveður norðanlands

Allt skólahald í grunnskólum Skagafjarðar fellur niður í dag vegna veðurs og ófærðar en mikið hvassviðri og snjókoma hefur gert allar aðstæður erfiðar til hreyfings. Mikill snjór er á götum Sauðárkróks og mikil ófærð. Víða er stórhríð og ófært á þjóðvegum á Norðurlandi vestra en unnið er að mokstri milli Hvammstanga og Blönduóss, á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Þá er einnig verið að moka Sauðárkróksbraut, á Siglufjarðarvegi sunnan Hofsóss og á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Holtavörðuheiði er lokuð og beðið með mokstur. 

Eins og staðan er núna þegar fréttin er skrifuð liggur heimasíða Vegagerðarinnar niðri.

Í athugasemd veðurfræðings Veðurstofu Íslands segir að það gangi á með snjókomu og hríðarveðri á norðurhluta landsins og viðbúið að færð spillist á fjallvegum og jafnvel víðar. Veðurviðvaranir eru í gildi fram að miðnætti.

Strandir og Norðurland vestra

Norðan 13-20 m/s og snjókoma eða slydda, mest á Ströndum, en austlægari með kvöldinu. Norðaustan 8-15 og dálítil snjókoma á morgun. Hiti nálægt frostmarki.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Norðan 8-15 m/s, dálítil él á N-verðu landinu og frost 0 til 7 stig, en léttskýjað sunnan heiða og hiti 0 til 5 stig.

Á sunnudag:
Norðlæg átt, 3-10 m/s og skýjað með köflum, en stöku él á A-landi. Kólnar dálítið fyrir norðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir