Voigt Travel aflýsir sumarflugi
Hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur ákveðið að aflýsa öllum flugferðum á sínum vegum í sumar, þ.m.t. til Akureyrar. Ástæðan er óvissan sem enn ríkir vegna Covid 19 faraldursins. Ferðaskrifstofan stóð fyrir vikulegum flugferðum milli Rotterdam og Akureyrar sumarið 2019. Flugfélagið Transavia annaðist flugið og gekk það vel í alla staði. Í vetur voru svo átta flugferðir frá Amsterdam til Akureyrar á vegum sömu aðila, sem einnig fengu góðar viðtökur.
Í fréttatilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands segir að áætlanir hefi gert ráð fyrir vikulegu flugi nú í sumar en vegna Covid 19 varð ekkert af þeim áformum í byrjun sumars. Nýverið tilkynnti Voigt Travel að ferðaskrifstofan hefði aflýst öllum flugferðum á sínum vegum í sumar, þ.m.t. til Akureyrar. Vegna óvissunnar um ferðalög í kjölfar Covid 19 höfðu flestir farþegar þeirra afbókað sínar ferðir í sumar. Um tveir af hverjum þremur Hollendingum hyggjast ekki ferðast til annarra landa á þessu ári og þeir sem ætla út fyrir landsteinana horfa helst til næstu nágrannalanda. Grundvöllur fyrir flugi í sumar var því brostinn. Hins vegar eru áform Voigt Travel um flugferðir á næsta ári óbreytt. Stefnt er að tíu flugferðum frá Amsterdam til Akureyrar frá og með 10. febrúar og svo vikulegu flugi næsta sumar.
„Covid 19 faraldurinn varð til þess að við þurftum að taka þá erfiðu ákvörðun að aflýsa flugi okkar í sumar. En við horfum til bjartari tíma á næsta ári. Við höfum trú á áfangastaðnum Norðurlandi og viljum halda áfram að byggja á því góða samstarfi sem við höfum átt við ferðaþjónustuaðila þar,“ sagði Cees van den Bosch, framkvæmdastjóri Voigt Travel.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.