Viltu njóta fræðslu í öflugu félagi?
U3A eða háskóli þriðja æviskeiðsins eru alþjóðleg samtök fólks sem komið er yfir miðjan aldur eða 50+. Samtökin eru aðili að alþjóðlegri hreyfingu U3A sem er til í 30-40 löndum víða um heim með hundruðum þúsunda meðlima. Áhersla er á virkni og fræðslu til að viðhalda og efla andlega og líkamlega heilsu. Engin skilyrði eru fyrir þátttöku og engin próf eru tekin.
Starfsemi U3A Reykjavík
Starfið fer fram með námskeiðum, fyrirlestrum, hópastarfi, kynnisferðum og ferðalögum innan lands og utan. Sem dæmi má nefna að haldið var námskeið um Indland og síðan fór hópur U3A félaga í ferðalag þangað, Einnig fór hópur félagsmanna í heimsókn til Prag vorið 2019 og tók síðan á móti hópi þaðan um haustið. Árið 2019 var farið í ferð um Breiðafjörðinn og sl. haust í heimsókn í Reykholt. Ferðalög hafa annars legið niðri árið 2020 vegna faraldurs. Þrjú viðamikil Evrópusamstarfsverkefni hafa verið unnin í samstarfi við önnur Evrópulönd, Vöruhús tækifæranna og Leiðir að menningararfinum eru dæmi um verkefni sprottin af þeim.
Fræðslufyrirlestrar í streymi
Kjarni starfseminnar eru vikulegir fræðslufyrirlestrar um fjölbreytt efni og síðan í haust er þeim streymt til félagsmanna. Þetta var í upphafi gert vegna samkomutakmarkana í heimsfaraldrinum en fyrirhugað er að halda áfram að streyma fyrirlestrum jafnframt því sem gestir geta verið í sal. Þetta gefur fólki utan höfuðborgarsvæðisins tækifæri til að gerast félagar og taka þátt í starfinu óháð búsetu. Nýlega var Kristinn R. Ólafsson, fréttaritari með fyrirlestur um sögu Spánar og Ragnar Axelsson með fyrirlestur um Hetjur norðurslóða. Einnig má nefna fyrirlestur um mikilvægi svefns, um jafnvægisþjálfun og um Boris, Bretland og Brexit.
Auðvelt að gerast félagi
Á heimasíðu U3A Reykjavík u3a.is er auðvelt að skrá sig og gerast félagi. Félagsgjöldum er stillt í hóf og eru þau nú 2.000.- kr. á ári. Fræðslufundir og aðrir viðburðir eru auglýstir á heimasíðunni og með tölvupósti til félagsmanna. Félagsmenn þurfa ekki að skrá sig á streymisfundi, þeir fá senda vefslóð á fundinn með nokkurra daga fyrirvara.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.