Vilja banna blóðmerahald á Íslandi
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um velferð dýra þar sem lagt er til að svokallað blóðmerahald verði bannað. Ef breytingin nær fram að ganga verður bannað að taka blóð úr fylfullum merum á Íslandi í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.
Í greinargerð segir:
„Lög um velferð dýra hafa það að markmiði að vernda dýr gegn ómannúðlegri meðferð. Bannað er að ofbjóða kröftum dýrs eða þoli eða misbjóða dýrum á annan hátt.
Á Íslandi er þó virkur iðnaður sem felst í blóðtöku úr lifandi hrossum í því skyni að vinna úr blóðinu hormón (PSMG) sem seld eru til líftæknifyrirtækja svo framleiða megi frjósemislyf fyrir búfénað. Þetta hormón finnst aðeins í blóði fylfullra mera. Líftæknifyrirtæki borga hátt verð fyrir hormónið og því hefur blóðmerahald aukist til muna hér á landi að undanförnu. Árið 2019 voru 5.036 merar notaðar í þessum tilgangi. Á nokkrum stöðum er þetta orðið að stórbúskap, með allt að 200 merar í blóðframleiðslu. Miklir fjárhagslegir hvatar eru til staðar til að hámarka afköst. Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er þar til hormónið fyrirfinnst ekki lengur í blóði þeirra og þá er þeim slátrað. Folöldin fara að jafnaði beint í slátur.
Erlendis hefur þessi iðnaður verið stundaður með grimmilegum hætti. Í Úrúgvæ og Argentínu eru dæmi um að merar sæti ofbeldi við blóðtöku og að framleiðendur framkvæmi fórstureyðingu svo hægt sé að fylja þær á ný, en þannig má auka framleiðslu á PSMG-hormóninu sem fyrirfinnst aðeins á fyrsta þriðjungi meðgöngu.
Í viðmiðum fyrir dýratilraunir hjá Virginia Tech-háskóla í Bandaríkjunum er lagt til að ekki sé tekið meira en 10% af blóðmagni á fjögurra vikna fresti og að ekki sé tekið meira en 7,5% af blóðmagni við blóðtöku sem framkvæmd er á vikufresti. Hér á landi er gengið talsvert lengra. Á meðan hormónið finnst í blóði meranna er framkvæmd blóðtaka á viku fresti, 5 lítrar í hvert skipti, 7–8 sinnum yfir sumarið. Íslenski hesturinn er minni en erlend hestakyn og því er blóðmagn í íslenskum merum aðeins 35–37 lítrar. Hér er því verið að taka um 14% af blóðmagni þeirra á viku hverri í tvo mánuði.
Ekki var fjallað sérstaklega um þessa starfsemi í frumvarpi um velferð dýra og ekki er fjallað um hana sérstaklega í reglugerð um velferð hrossa eða í reglugerð um velferð dýra sem eru notuð í vísindaskyni. Ekki er í þessum reglugerðum fjallað um hversu langt megi ganga við reglulega blóðtöku úr fylfullum merum í því skyni að framleiða PSMG umfram almenn ákvæði þeirra. Það er því ekkert í lögum eða reglugerðum sem kveður á um hve mikið af blóði megi taka úr fylfullum merum hverju sinni, né hve oft, né hvaða aðbúnaður þurfi að vera til staðar. Þetta er með öllu ótækt í ljósi þess hve umfangsmikil þessi starfsemi er hér á landi.
Þá eru dæmi um að merar drepist við blóðtöku. Ekki eru til opinberar tölur yfir það en yfirdýralæknir sagði í viðtali árið 1998 að um 1–2 merar hefðu drepist á sumri. Mögulega hafa fleiri merar drepist af afleiðingum blóðtöku, en þegar merar drepast í stóðum eftir blóðtöku er erfitt að ganga úr skugga um hvort það megi rekja til blóðtökunnar eða annarra þátta. Þótt merar drepist ekki við blóðtöku getur iðnaðurinn haft slæm áhrif á líf og líðan þeirra. Samkvæmt Matvælastofnun hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir á þremur bæjum vegna blóðmerahalds á síðustu þremur árum.
Það brýtur gegn öllum sjónarmiðum um velferð dýra að rækta hross til blóðframleiðslu í gróðaskyni. Því er lagt til að bannað verði að taka blóð úr fylfullum merum í því skyni að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.“
Meðflutningsmenn Ingu Sæland er flokksfélagi hennar og formaður þingflokks Flokks fólksins Guðmundur Ingi Kristinsson og Píratarnir Olga Margrét Cilia, sem nú situr fyrir Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur og Sara Elísa Þórðardóttir varaþingmaður Halldóru Mogensen.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.