Viðhaldsþörf Húnavers og Dalsmynnis hleypur á tugum milljóna
Kostnaður Húnavatnshrepps vegna reksturs Húnavers og Dalsmynnis síðastliðin fimm ár nemur rúmlega 35 milljónum króna og eru viðhaldsframkvæmdir vegna húsanna næstu fimm árin áætlaðar um 77 milljónum króna. Þetta kemur fram í minnisblöðum sem lögð voru fram á síðasta sveitarstjórnarfundi Húnavatnshrepps. Í þeim er tekinn saman kostnaður við rekstur félagsheimilanna tveggja árin 2015 til 2020 og tilgreindar helstu viðhaldsframkvæmdir sem ráðast þarf í næstu fimm árin.
Rekstrargjöld Húnavers hafa numið að meðaltali um 4,8 milljónum króna umfram rekstrartekjur síðastliðin fimm ár og er uppsafnað rekstrartap um 24,1 milljón króna. Rekstrargjöld Dalsmynnis hafa numið að meðaltali um 2,2 milljónum umfram rekstrartekjur síðastliðin fimm ár og uppsafnað rekstrartap er um 11,4 milljónir.
Nauðsynlegt viðhald Húnavers næstu fimm árin er áætlað 42 milljónir króna. Stærsti kostnaðarliðurinn er endurnýjun á þaki yfir íbúð, inngangi og aðalsal en reikna má með að það kosti um 14 milljónir. Endurnýja þarf salerni og koma fyrir salerni fyrir fatlaða og er áætlaður kostnaður um 5,4 milljónir. Þá þarf að endurnýja loft og gólfefni í anddyri, laga gólf í þvottahúsi og kyndiklefa, mála húsið að utan og ganga frá gluggum og klæða suðvestur endahússins ásamt steypuviðgerðum, svo eitthvað sé nefnt.
Nauðsynlegt viðhald Dalsmynnis næstu fimm árin er áætlað 34,8 milljónir króna. Stærsti kostnaðarliðurinn er klæðning á allt húsið, gluggaskipti og fleira en reikna má með að það kosti 13,3 milljónir. Laga þarf tröppur og aðgengi fyrir fatlaða og kostar það um 3,5 milljónir. Þá þarf að endurnýja neysluvatn og frárennsli, einangra þak og skipta um járn á aðalsal, kaupa varmadælu og fleira.
/Huni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.