Viðaukasamningur við Sóknaráætlun undirritaður
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, undirrituðu á dögunum viðaukasamning við Sóknaráætlun Norðurlands vestra en ákveðið var í fjáraukalögum, sem samþykkt voru þann 30. mars sl., að veita viðbótarfjármagni til sóknaráætlana landshlutanna til að sporna við áhrifum Covid-19 á landsbyggðinni. Fjárhæðin sem veitt var til viðbótar nemur 200 milljónum króna og koma 26 milljónir í hlut Norðurlands vestra.
Stjórn SSNV ákvað, á fundi sínum í byrjun apríl, að verja allt að 50 milljónum á næstu mánuðum í átaksverkefni til eflingar atvinnu- og menningarlífs á Norðurlandi vestra. Auglýst var eftir hugmyndum að verkefnum og bárust alls 90 tillögur. 14 verkefni í þremur flokkum fengu brautargengi: verkefni til eflingar ferðaþjónustu, verkefni sem tengjast atvinnuþróun- og nýsköpun og mennta og menningarverkefni. Nánar má kynna sér verkefnin hér.
Í frétt á vef SSNV kemur fram að gengið hefur verið frá samningum um vel flest þeirra verkefna sem skilgreind voru og er vinna við þau þegar hafin. „Sá skammi tími sem leið frá því að ríkisstjórn ákvað að veita viðbótar fjármagni inn í sóknaráætlun landshlutans og þar til verkefni hófust sýnir hversu öflugur og skilvirkur farvegur áætlanirnar eru. Þar skiptir hin mikla þátttaka íbúa svæðisins með innsendum hugmyndum miklu máli og er vert að þakka fyrir góð viðbrögð,“ segir í fréttinni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.