„Við vorum bara heilluð af svæðinu eins og allir sem það heimsækja“
Sóti Summits er í eigu hjónanna Ólafar Ýrar Atladóttur og Arnars Þórs Árnasonar og er hatturinn á tvíþættri starfsemi, sveitahótelsins Sóta Lodge og ferðaskrifstofunnar Sóta Travel. „Starfsemina má rekja til þess að við keyptum á haustdögum 2015 gamla skólahúsið að Sólgörðum í Fljótum með draum um að endurbyggja og starfrækja þar gæðagistingu fyrir útivistarfólk og aðra sem vilja njóta þessa yndislega staðar,“ segir Ólöf. Eftir umfangsmikla endurbyggingu lauk Sóti Lodge svo upp dyrum fyrir gestum sínum á vordögum 2020. „Samhliða því öfluðum við ferðaskrifstofuleyfis enda gerðum við okkur ljóst, ekki síst með tilliti til þeirra atburða sem urðu í vor, að það yrði okkur styrkur að geta skipulagt og markaðssett okkar eigin ferðir.“
Ólöf er fyrrverandi ferðamálastjóri. Hún gegndi því embætti um tíu ára skeið frá 2008-2017, en var viðloðandi ferðaþjónustu með ýmsum hætti á árum áður, starfaði sem gönguleiðsögumaður á hálendinu og að landvörslu í þjóðgörðum og á friðuðum svæðum víða um land, var leiðsögumaður hjá Hestasporti í Skagafirði og rak fræðslu- og ferðasetrið Kviku í Mývatnssveit. Ólöf starfar nú um stundir að ferðaþjónustuverk-efni við Rauða hafið í Sádí Arabíu. Arnar Þór á og rekur Aðalbókarann, bókhaldsstofu sem sérhæfir sig í þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki. Hann er forsvarsmaður Sóta Summits og heldur utan um alla starfsemi fyrirtækisins.
„Margrét Kristinsdóttir er gestgjafinn á Sóta Lodge, gistiheimilinu að Sólgörðum. Hún sér um að öllum líði vel og njóti þeirrar fyrirtaksþjónustu sem við leggjum metnað okkar í en hún er jafnframt umsjónarmaður sundlaugar-innar á Sólgörðum fyrir okkar hönd. Gestur Þór Guðmundsson er rekstrarstjóri ferða-þjónustuarms fyrirtækisins og sér um að hanna, skipuleggja og selja samsettar ferðir á okkar vegum í samstarfi við þá sérhæfðu fagaðila sem við störfum með.“
Hvaðan kemur nafnið? „Sóta-nafnið kemur af einkennisfjallinu okkar, Sótahnjúki, sem blasir við morgunverðargest-um á Sóta Lodge. Það er afar formfagurt og skemmtilegt til uppgöngu, en af því sést vítt um landnám Hrafna-Flóka og langt norður til heimskautsbaugs,“ segir Arnar Þór.
Hann segir að þau hafi í ár boðið upp á ýmsa pakka fyrir íslenska gesti sína. „En auðvitað er kyrrðin, víðáttan og friðurinn í Fljótum ekki minnsta aðdráttaraflið. Hing-að er hægt að koma með fjölskylduna eða í litlum hópi og njóta minnistæðra samverustunda, hvenær sem er. Í sumar bættum við svo sundlauginni að Sólgörðum í rekstrareininguna en við gerðum samning við Sveitarfélagið Skagafjörð um rekstur-inn næstu þrjú árin og ætlum okkur að gera ýmsar endurbætur á lauginni og umhverfi hennar.“
Hvað var áður í húsinu og hvað þurfti að gera til að koma því í stand? „Þegar við tókum við húsinu í október 2015 var í raun ekkert þar innanhúss, hvorki gólfefni né hurðir og húsið allt illa farið. Það má segja að við höfum endurbyggt það frá grunni og við lögðum okkur fram um að vanda til verka. Hótelið býður gistingu fyrir allt að 15 manns í sjö herbergjum sem öll eru með salerni og sturtu. Borðsalurinn er með einstakt útsýni yfir fjallahringinn í Fljótum en við létum skera nýjan glugga til austurs til að geta boðið gest-um okkar upp á þetta síbreytilega náttúrulistaverk. Stofan er líka notaleg og ætluð til þess að fólk geti komið saman og liðið eins og heima hjá sér við leik og spjall,“ segir Ólöf.
Það skemmir ekki fyrir að fjölskylda Ólafar er úr Fljótum, móðurafi hennar er alinn upp á Fyrirbarði, næsta bæ við Sólgarða og móðuramma hennar á ættir að rekja í Stóra- Holt. „Hennar fjölskyldusaga á því rætur hér,“ segir Arnar Þór.
Hversu langan tíma tók að gera upp og hvað var erfiðast eða skemmtilegast? „Við fjárfestum í húsinu haustið 2015, gerðum það smám saman gróflega íbúðarhæft fyrir okkur og nýttum tímann í að kynnast Fljótunum og Tröllaskaga betur. Endurbyggingarstarfið hófst svo 2017. Það var auðvitað ýmislegt sem kom upp á og ekki hægt að segja annað en að ferlið hafi verið lærdómsríkt en skemmtilegast fannst okkur að fá tækifæri til að njóta þess að vera í Fljótum og svo að sjá afraksturinn – sveitahótel sem við erum virkilega stolt af,“ segir Ólöf.
Tröllaskaginn er skíðahöfuðborg Íslands
Eru Fljótin paradís? „Strax og við sáum húsið auglýst á sínum tíma kallaði svæðið á okkur. Við vorum farin að velta fyrir okkur hvað okkur langaði að gera í framtíðinni og uppbygging staðbundinnar ferðaþjónustu heillaði. Við höfum verið mikið á skíðum og í útivist og Ólöf veiddi um tíma árlega með vinkvennahópi í Fljótaá, þannig að svæðið höfðaði sterklega til okkar eigin áhugamála, “ segir Arnar Þór og heldur áfram: „Fljótin eru auðvitað paradís útivistarfólks; hér eru göngu- og hjólaleiðir um allt, hestamennska, veiðiár, vötn og berjamór að sumri og á veturna er Tröllaskaginn skíðahöfuðborg Íslands og skiptir þá engu hvort um er að ræða gönguskíði, alpaskíði eða fjallaskíði. Eftir fyrstu skoðun á húsinu og umhverfi þess varð ekki aftur snúið – við vorum bara heilluð af svæðinu eins og allir sem það heimsækja.“
Bjóðið þið upp á afþreyingu og veitingar fyrir gesti? „Við seljum alla gistingu með morgunverði og þriggja rétta kvöldverði og veitum alla þjónustu í drykkjarföngum. Við erum svo heppin að gestgjafar okkar á staðnum hafa sýnt fádæma natni við að tryggja gæði matar, veitinga og þjónustu þannig að gestir okkar njóti dvalarinnar í hvívetna,“ segir Ólöf.
Arnar Þór minnir á að þau séu með ferðaskrifstofuleyfi og bjóði margskonar ferðapakka með mismunandi áherslum. „En við leggjum líka áherslu á að kynna nágrennið fyrir gestum, bjóðum dagsferðir, bæði gönguferðir og ferðir á raf-fjallahjólum, sem opna víddir og tinda fyrir öllum sem vilja stíga á hjólhest. Hann Gestur er reyndur og vandvirkur leiðsögumaður sem tryggir að allar ferðir séu gestum til gleði. Við erum líka í góðu samstarfi við nágranna okkar, þ.á.m. Langhús hestaleigu og Brúnastaði, en þar hefur á undanförnum árum m.a. verið rekinn húsdýra-garður sem gleður yngstu gestina.“
Hvernig gestir eru það sem heimsækja Sóta og hver er markhópurinn? „Við höfum einbeitt okkur að markaðssetningu og kynningarstarfi á netinu og samfélagsmiðlum, erum vel sýnileg á Facebook og Instagram og erum með öfluga vefsíðu (www.sotisummits.is). Við beinum kynningarstarfsemi okkar að gestum sem vilja njóta dásamlegrar og stórbrotinnar náttúru, friðsemdar og ævintýra og höfum reynt að höfða til þeirra sem vilja njóta hvers kyns útivistar.“
Hefur Covid-faraldurinn sett strik í reikninginn hjá ykkur? „Vissulega settu faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir allt úr skorðum hjá okkur en á móti kom að okkur gafst tækifæri til að einbeita okkur að íslenska markaðinum og það hefur verið mjög gaman. Við vitum að við erum frábær kostur fyrir Íslendinga sem eru að leita að afþreyingu, notalegheitum og góðri þjónustu og munum áfram byggja okkar starfsemi á að sinna heimalandinu vel.
Það olli svo viðbótarerfiðleikum að við féllum milli skips og bryggju í aðgerðum stjórnvalda, þar sem okkar starfsemi byrjaði í raun þegar allt skall í lás í vor og allar aðgerðir stjórnvalda miðuðust við samanburð við rekstur fyrra árs, en vonandi sjáum við til sólar í ferðaþjónust-unni með vorinu. Við höldum ótrauð áfram og hlökkum til að bjóða gestum okkar áfram upp á fjölbreytta dagskrá og gæðaþjónustu,“ segja Ólöf og Arnar Þór.
Sveitahótelið er opið allan ársins hring og þau eru alltaf með eitthvað á döfinni. Nú í vetrarbyrjun settu þau í loftið tilboð á gistingu og buðu sérsniðna dagskrá fyrir ýmsa litla hópa, en eftir áramót stendur til að keyra upp í skíðavertíðina, með gönguskíðaferðum, fjallaskíðadagskrá og námskeið sem auka öryggi í fjallaferðamennsku að vetrum. Þau hvetja fólk til að fylgjast með á vefsíðunni og skrá sig á póstlistann til að missa ekki af tækifærum til upplifunar.
- - - - -
Viðtalið birtist áður í 48. tölublaði Feykis 2020.
Myndir eru fengnar af Facebook-síðu Sóta Lodge.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.