Verkís opnar skrifstofu á Blönduósi
Mánudaginn 1. mars síðastliðinn skrifaði Verkís verkfræðistofa undir leigusamning við Ámundakinn ehf vegna skrifstofuhúsnæðis að Húnabraut 13 á Blönduósi. Þar hefur Verkís nú þegar opnað skrifstofu og er stefnt að því að hún verði opin einu sinni í viku að jafnaði og jafnvel oftar ef þörf þykir.
Starfsmaður Verkís á Sauðárkróki, Magnús Ingvarsson, mun sinna skrifstofunni til að byrja með en ætlunin er að ráða starfsmann sem hefur aðsetur á Blönduósi og að skrifstofan verði því opin alla daga vikunnar. Þessir starfsmenn eru síðan studdir öflugum starfsmönnum Verkís annars staðar á landinu sem gerir þeim þannig kleift að veita þjónustu á breiðum grunni í fjölbreyttum verkefnum, bæði stórum sem smáum.
Verkís hefur horft sérstaklega til þess að efla þjónustu sína á Norðurlandi vestra á undanförnum misserum og er opnun skrifstofu á Blönduósi liður í þeirri viðleitni.
Ámundakinn er bakhjarl atvinnulífs á svæðinu og umsvif félagsins treysta stoðir annarra fyrirtækja á svæðinu. Það er fyrirtækjum mikilvægt að til staðar sé fjölbreytt húsnæði sem hentar mismunandi starfsemi þannig að atvinnustarfsemi af ýmsum toga eigi auðvelt með að koma sér fyrir.
Það er sérstaklega ánægjulegt að þessi leigusamningur sé í höfn milli Verkís og Ámundakinnar og að starfsemi sé hafin í rýminu sem um ræðir.
Það er von beggja aðila að þetta sé upphafið að farsælu samstarfi þeirra sem geti orðið til þess að styrkja stoðir atvinnulífs á svæðinu enn frekar.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.