Varaafl bætt víða um land
Varaafl hefur verið bætt á 68 fjarskiptastöðum um land allt í fyrri áfanga við umfangsmiklar endurbætur á fjarskiptastöðum. Tilgangurinn er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum eftir mikil óveður sem gengu yfir landið í desember 2019. Settar hafa verið upp 32 nýjar fastar vararafstöðvar, rafgeymum bætt við á tíu lykilskiptistöðvum fjarskipta, tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar settir upp á 26 stöðum, ljósleiðaratengingum fjölgað og ýmsar endurbætur gerðar á öðrum stöðum.
Tíu fastar vararafstöðvar hafa verið settar upp á Norðurlandi vestra, sjö færanlegar rafstöðvar og þrír færanlegir rafgeymar. Dreifingu þeirra má sjá á meðfylgjandi korti.
Í frétt á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins segir að varaaflsverkefninu hafi verið skipt í tvo áfanga. Í fyrra áfanganum var unnið að verkefnum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Stefnt er að því að 100 milljónir króna bætist við verkefnið á næsta ári. Þá verður hugað að varaaflstöðvum á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu. Þó hefur þegar tekist gera ýmsar úrbætur á Vestur- og Suðurlandi í tengslum við fyrri áfangann en þeirri vinnu verður haldið áfram.
Í kjölfar veðurhamfara síðasta vetur ákvað ríkisstjórnin að ráðast í átak um úrbætur á fjarskiptainnviðum og varaaflstöðvum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti í vor verkefnið fengi 275,5 milljóna kr. fjárveitingu árið 2020 á vegum fjarskiptasjóðs. Fjárveitingin var veitt á grundvelli fjárfestingaátaks stjórnvalda til að sporna jafnframt gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins.
„Óveðrið sem gekk yfir landið afhjúpaði marga veikleika í rafmagns- og fjarskiptakerfum landsins og boðaði ríkisstjórnin fjárfestingaátak sem er að klárast. Tilgangurinn er að tryggja fjarskiptaöryggi í óveðrum. Við ætlum að tryggja sem best að ef slíkt fárviðri geisar aftur sé til staðar varaafl og nægt rafmagn. Skipting framkvæmda fer eftir ástandi flutnings- og dreifikerfa rafmagns og varaafls en það kom í ljós að þessir innviðir þoldu hvað verst óveðrið á Norðurlandi,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Neyðarlínan hefur átt í nánu samstarfi við Mílu, fjarskiptafélögin Nova, Símann og Sýn (Vodafone) og Ríkisútvarpið um aðgerðir til að tryggja samfelld fjarskipti í langvarandi rafmagnsleysi. Neyðarlínan hefur verið í forsvari fyrir verkefninu og samningur um það var gerður 6. maí sl.
Færanlegar rafstöðvar fyrir björgunarsveitir
Fimmtán færanlegar rafstöðvar hafa einnig verið pantaðar en þær verða til taks hjá björgunarsveitum og slökkviliðum á Norður- og Austurlandi. Í síðasta óveðri þurfti að flytja rafstöðvar á milli landshluta sem gekk erfiðlega í ófærð sem fylgdi veðrinu og tafði lagfæringar. Með því að fjölga færanlegum rafstöðvum og staðsetja nær notkunarstað verður mun fljótlegra að koma rafmagni á.
Samhliða uppbyggingu varaafls hefur verið unnið að því að tengja fjarskiptastaði með ljósleiðara. Kemur sú tenging í stað örbylgjusambands en óveður hafa leikið örbylgjubúnað grátt þar sem loftnet hafa fokið á haf út eða snúist og tenging við staðinn þar með rofnað.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.