Útibú Arionbanka á Blönduósi lokar
Ákveðið hefur verið að sameina útibú Arion banka á Blönduósi við útbúið á Sauðárkróki og tekur breytingin gildi 5. maí næstkomandi, eftir því sem kemur fram í frétt á Húni.is. Í tilkynningu sem bankinn sendi viðskiptavinum sínum á Blönduósi segir að undanfarin ár hafi verið gerðar breytingar á útibúaneti bankans til að aðlaga það að nýrri nálgun í bankaþjónustu þar sem lögð sé áhersla á gott aðgengi að stafrænum þjónustuleiðum.
Fram kemur á Húna.is að að liður í þessum breytingum sé að miðvikudaginn 5. maí 2021 muni útibúið á Blönduósi sameinast útibúi bankans á Sauðárkróki og sé það síðasti opnunardagur á Blönduósi. Áfram verði alhliða hraðbanki á Blönduósi þar sem hægt verði að taka út og leggja inn seðla, greiða reikninga, enduropna PIN númer og millifæra. Hraðbankinn verði fyrst um sinn staðsettur í núverandi húsnæði að Húnabraut 5.
Sveitarstjórn mótmælir harðlega áformum Arion banka
Fulltrúar Arion banka kynntu hugmyndir um enn frekari skerðingu á bankaþjónustu á Blönduósi á sveitarstjórnarfundi sem fram fór á þriðjudaginn. Á vef Blönduóssbæjar kemur fram að sveitarstjórn Blönduósbæjar mótmæli harðlega fyrirhuguðum áformum um að loka alveg útibúi Arion banka á Blönduósi. Þjónusta bankans hafi verið skert verulega á undanförnum árum og var sú þróun hafin áður en heimsfaraldur Covid19 kom til. „Sveitarstjórn lýsir yfir miklum vonbrigðum yfir skertri fjármálaþjónustu við íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu og nágrenni, auk þeirra fjölmörgu sem hingað koma eða fara um.
Sveitarstjórn felur sveitarstjóra, í samráði við byggðaráð að kanna og koma með tillögur um frekari viðbrögð við boðaðri lokun bankans, með tilliti til framtíðar bankaviðskipta sveitarfélagsins,“ segir í bókun sveitarstjórnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.