Umferð á Norðurlandi dróst saman um 40% milli ára
COVID-19 og meðfylgjandi takmarkanir hafa alls konar áhrif og breytingar í för með sér. Talsverð áhersla hefur t.a.m. verið lögð á að fólk stilli ferðalögum í hóf og þess ber augljóslega merki þegar umferðartölur eru skoðaðar. Þrátt fyrir ágætis ferðaveður í nóvember reyndist umferðin um Hringveginn 21,5% minni en fyrir ári en mestur varð samdrátturinn á Norðurlandi, eða tæplega 40%.
Í frétt á vef Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir: Umferðin yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í nóvember var rúmlega 10% minni en í október sl. en 21,5% minni en í sama mánuði á síðasta ári. Þetta er sama hlutfall samdráttar og mældist í október. Eins og nærri má geta er þetta met samdráttur milli nóvember mánaða og rúmlega þremur og hálfu sinnum meiri en fyrra met, sem varð á milli áranna 2011 og 2012. Leita þarf aftur til ársins 2015 til að finna minni umferð í nóvember mánuði, yfir umrædda mælistaði.
Mikill samdráttur varð í öllum landssvæðum en mestur um Norðurland eða tæplega 40% en, utan höfuðborgarsvæðis, varð hann minnstur um mælistaði á Vesturlandi. Þetta er gríðar mikill samdráttur um Hringveginn úti á landi og það lætur nærri að annar hver bíll frá síðasta ári hafi horfið úr umferðinni um Norðurland en þriðji hver um önnur landssvæði fyrir utan höfuðborgarsvæðið en þar varð rétt rúmlega 13% samdráttur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.