Tveir laxar veiddust í Víðidalsá á opnunardaginn
Húnahornið er enn sem fyrr með puttann á veiðipúlsinum. Þar segir af því að veiðitölur frá helstu laxveiðiám landsins séu byrjaðar að birtast á vef Landssambands veiðifélaga. Laxveiðiárnar í Húnavatnssýslum hafa verið að opna hver af annarri, Blanda 5. júní, Miðfjarðará 15. júní og nú síðast Víðidalsá 18. júní. Tveir laxar veiddust á opnunardegi Víðidalsár og opnunarhollið náði að landa samtals sex löxum, sem er líklega dræmasta opnun í mörg ár. Af þessum sex löxum komu fjórir úr Fitjaá.
„Veðrið setti vissulega strik í reikning veiðimanna en það rigndi mikið sem þýddi litað vatn. Veiðimenn settu í nokkra fiska hér og þar en misstu. Líf var á öllum svæðum, en takan dræm,“ segir á Húna.is.
Samkvæmt veiðitölum, sem miðast við miðvikudaginn, hafa 18 laxar veiðst í Miðfjarðará og þrír í Blöndu. Vatnsdalsá opnar í dag. Veiðitölur eru jafnan uppfærðar á miðvikudagskvöldum þannig að áhugasamir geta beðið framan við tölvurnar í miðri viku.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.